Plúsar: Aksturseiginleikar, pláss í aftursætum, hönnun
Mínusar: Stilling á miðstöð, Hik í upptaki, opnun afturglugga

Audi Q8 er bíll sem aðdáendur Audi eru búnir að bíða lengi eftir. BMW kynnti fyrsta stóra Coupe sportjeppann árið 2008, og til að blanda sér í vinsældakeppnina kom Mercedes-benz með GLE Coupe árið 2015. Q8 var fyrst kynntur sem hugmyndabíll árið 2017 á bílasýningunni í Detroit en kom fyrir almenningssjónir sem framleiðslubíll í fyrra. Í samanburði við Audi Q7 er Q8 styttri og lægri, en aðeins breiðari og hann er ekki fáanlegur með þriðju sætaröðinni.

Sportlegur og fágaður í senn

Þrátt fyrir önnur hlutföll en í Q7 er Audi Q8 stór á alla kanta og átthyrningslaga grillið að frama er í yfirstærð líka. Það minnir einna helst á bros Sophia Loren enda bíllinn afburða fagur á að líta. Að innan er Q8 sérlega fallegur og hönnun hans í senn bæði sportleg og fáguð. Þrír stórir litaskjáir taka á móti manni og eru tveir þerra snertiskjáir. Það er eins og það þurfi að ýta aðeins fastar á skjáinn en maður er annars vanur. Það getur verið leiðigjarnt þegar nota þarf snertitakka fyrir miðstöð og getur tekið langan tíma til að finna rétt hitastig, svo langan að ökumaður þarf að taka augun af veginum í nokkrar sekúndur. Það þó væsir ekki um ökumann né farþega í Q8. Farinn var góður bíltúr á bílnum fyrripart laugardags og ásamt ökumanni voru fjórir fullvaxnir karlmenn með í för. Kvartaði enginn yfir plássleysi og höfðu frekar orð á því hversu gott pláss væri fyrir fætur.

Mjög gott aðgengi

Aðgengi í Audi Q8 er mjög gott og gott pláss í öllum sætum hans.

Aðgengi í Q8 er með því besta sem gerist í jeppaflokki, hurðirnar eru stórar og ná vel niður svo að ekki þarf að klofa yfir bita við innstig. Þær eru í raun og veru svo stórar að þær skaga mjög mikið til hliða við fulla opnun, svo mikið að maður forðaðist að leggja bílnum í bílageymsluhúsi og lagði þess í stað frekar utandyra þar sem meira pláss var í kringum bílinn. Einnig má taka fram að hliðarrúður afturí opnast undarlega lítið og eru varla nema hálfnaðar niður þegar þær komast ekki lengra. Þótt farangursrými í Q8 sé lang er það ekki eins stórt og ætla mætti. Líður Q8 aðeins fyrir hversu mikið þakið hallar niður að aftan svo að háir hlutir geta einfaldlega rekist í afturhlerann. Það er kostur að því að hægt er að lækka bílinn á loftpúðafjöðruninni að aftanverðu en ef fella þarf niður aftursæti þarf það að gerast frá aftursætaröðinni.

Farangursrými er nokkuð stórt og rúmgott en sökum afturhallandi þaks er ekki eins gott pláss fyrir stærri hluti og ætla mætti.

Með fjórhjólastýringu

Audi Q8 er sportlegur í akstri og liggur vel á vegi vegna fjórhjólastýringar og loftpúðafjöðrunar.

Stýrið í Q8 er sérkapítuli enda leggur það á rétt rúma tvo hringi borð í borð. Þrátt fyrir það er ekki hægt að segja að það sé mjög næmt eða fljótt að virka. Það er einstaklega létt við allar aðstæður. Hluti af útskýringunni er sú að bíllinn er búinn fjórhjólastýringu og geta afturhjólin beygt allt að fimm gráður með framhjólunum. Það kemur sér vel þegar snúa þarf bílnum við þröngar aðstæður og er snúninghringur þessa stóra bíls litlu stærri en litla bróðirs hans A3. Á lítilli ferð snúast afturhjólin öfugt miðað við framhjólin en snúast með þegar stýrinu er snúið að meiri hraða. Fyrir vikið er bíllinn sérlega stöðugur á vegi og leggst sama og ekkert til hliðanna. Þar hjálpar líka loftpúðafjöðrunin til að halda honum eins og nelgdum við veginn.

Mælaborðið er fágað en samt sportlegt og aðalatriðin eru þrír stórir upplýsingaskjáir.

Sjálfskiptingin í Q8 er átta þrepa ZF skipting sem er orðin mjög algeng enda góð fyrir markar sakir, gefur léttar og hnökralausar skiptingar við hvaða aðstæður sem er. Sá gjalli er þó á gjöf Njarðar að viðbragð hennar úr kyrrstöðu er ekki eins gott og ætla mætti af svon sportjeppa og alltof mikið hik til staðar. Ef maður vill vera snöggur af stað þarf að standa með vinstri fót á bremsunni og halda hægri fæti á nokkurri gjöf.

Hinn fullkomni sportjeppi

Hér á landi má segja að helstu keppinautar þessa bíls séu BMW X6 og Mercedes-Benz GLE Coupé. Audi Q8 er nokkuð undir þeim í verði, en grunnverð X6 er 13.990.000 kr og 13.360.000 kr fyrir GLE Coupé. Audi Q8 er vel búinn í grunnútgáfu sinni og jafnvel enn sportlegri í akstri auk þess að vera rúmgóður og þægilegur í umgengi og þess vegna er óhætt að svara spurningunni í fyrirsögn greinarinnar með einföldu já-i. Þótt Q8 sé auðvitað ekki hnökralaus frekar en nokkur annar bíll eru kostirnir mun veigameiri en gallarnir og því óhætt að mæla vel með þessum skemmtilega bíl.

Tækniupplýsingar

Vélin er öflug og togar vel með sín 286 hestöfl og 600 Newtonmetra.

Verð frá:                     12.920.000 kr.          
Vél:                              2.967 rsm
Hestöfl:                       286 við 3.500-4.000 sn.
Newtonmetrar:          600 við 2.250-3.250sn.
0-100 k á klst:           6,3 sek.
Hámarkshraði:           245 km
CO2:                            178 g/km
Eigin þyngd:              2.230 kg                 
L/B/H                         4986/2190/1705 mm
Eyðsla bl ak:               6,6 l/100 km