Range Rover Sport PHEV

Plús: Efnisval í innréttingu, hljóðlátur, framsæti
Mínus: Dráttargeta, farangursrými, hliðarvasar

Range Rover Sport fékk andlitslyftingu á síðasta ári og kynnti þá um leið PHEV útgáfu af honum. Samkeppni tengiltvinnbíla á lúxusjeppamarkaði fer síharðnandi og löngu orðið tímabært fyrir Range Rover að skella sér í samkeppnina. Með nýja bílnum er hægt að keyra 50 km á rafmagni án þess að eyða dropa af eldsneyti. billinn.is fékk hann til reynsluaksturs á dögunum og lét reyna á hvort það sé eitthvað sem réttlætir viðbótina Sport í nafninu.

Talsverður snjór og skafrenningur á lítt förnum vegi þar sem reyndi vel á fjöðrun og stýri.

Með innréttinguna úr Velar

Mælaborðið er fágað og stílhreint enda kemur það beint úr hinum nýja Range Rover Velar.

Breytingarnar utandyra á Range Rover Sport eru ekki veigamiklar en skipta samt töluverðu máli fyrir útlit bílsins. Komnir eru nýir stuðarar að framan og aftan en það sem munar um mest eru ný díóðuljós með Pixel tækni sem geta breytt stefnu ljósgeislans eftir umferðinni eða veginum fyrir framan bílinn. Til að setja punktinn yfir i-ið útlitslega er hann nú á 21 tommu felgum sem setja mikinn svip á hann. Að innan er breytingin mun meiri og fágun og gæði í hávegum höfð. Efnisval er með því allra besta og ódýr plastefni hvergi sjáanleg. Það sést vel að meira er lagt í suma hluti, eins og til dæmis takkar fyrir rúðuupphala, sem eru úr burstuðu stáli í stað plasts eins og í flestum öðrum bílum. Upplýsingakerfið kemur beint úr hinum nýja Range Rover Velar og setur mikinn svip á bílinn innandyra. Eini ljóðurinn á því er að ekki er hægt að nota Apple Carplay eða Android Auto á þvi. Annars er gott að nota upplýsingakerfið og það er kostur að hönnuðir Land Rover skuli hafa valið að hafa hefðbundna snúningstakka fyrir miðstöðina svo að ökumaður þurfi ekki að taka augun lengi af veginum til að breyta stillingum á miðstöð. Sætin í Range Rover Sport eru sérlega þægileg enda stór og rúmgóð með afbrigðum. Svo rúmgóð eru þau að vasar í hurðum bílsins eru illa aðgengilegir og gildir þá einu hvort um framsæti eða aftursæti er að ræða. Aftursæti eru þægileg og rúmgóð en mætti vera hægt að stilla á fleiri vegu. Farangursrými er þokkalegt í Range Rover Sport PHEV en ekkert meira en það. Rafhlaðan er sett undir gólfið í farangursrýminu sem þýðir að það er 46 mm hærra en annars og því aðeins meira mál að lyfta þangað þungum töskum og þess háttar. Við það tapast 79 lítrar miðað við 780 lítra farangursrými í hefðbundnum Range Rover Sport.

Farangursrými í Range Rover Sport PHEV er rúmir 700 lítrar sem er ágætt en gólfið er hærra en annars vegna rafhlöðunnar.
Hér má sjá pláss í aftursæti þegar framsæti eru stillt fyrir sama einstakling.

Einstaklega hljóðlátur

Þessi litla, tveggja lítra vél skilar aðdáanverðu afli eins og sér eða tæpum 300 hestöflum. Þegar hún er ein að vinna er þó CO mengunargildi hennar komið uppí 216 g/km.

Vélin í Range Rover Sport PHEV er aðeins tveggja lítra vél með forþjöppu en hún ein og sér skilar samt 297 hestöflum. Þegar rafmótorinn bætist við með sín 114 hestöfl eru hestöflin samtals 399 þegar mótorarnir tveir eru að vinna saman. Þess vegna er þessi bíll sem er alls engin léttavara aðeins 6,7 sekúndur að skila sér í 100 km hraða. Þetta góða viðbragð kemur sér best í innanbæjarakstri þar sem bíllinn fer snöggt en þó átakalaust af stað sem undirstrikar þægindin. Uppgefin dráttargeta er 2,5 tonn sem er ekkert sérstakt fyrir jeppa í þessum stærðarflokki og allt að tonni minna en í öðrum útgáfum hans. Þegar rafhlaðan er uppurin er hætt við að þessi tala lækki nokkuð og því setur maður spurningamerki við hvað mikið þessi bíll getur í raun og veru dregið. Í tengiltvinnútgáfu sinni er Range Rover Sport einn hljóðlátasti jeppi sem völ er á. Það er hrein unun hversu hljólega hann líður áfram og jafnvel þegar vélina kemur inn er ekki hægt að kvarta yfir miklum hávaða. Þótt Range Rover Sport PHEV sé sannkallaður lúxusbíll og hagi sér sem slíkur er hann enginn sportari ens og nafnið gefur til kynna. Það finnst vel að hér er stór og þungur bíll í akstri og ef ekki væri fyrir loftpúðafjöðrunina myndi þessi bíll haga sér allt öðruvísi. Skriðþungi hans er mikill og við vissar aðstæður eins og í mikilli hálku og snjó eins og hann var prófaður í, þarf að gæta sín. Var talsverður snjór og skafrenningur á lítt förnum vegi þar sem reyndi vel á fjöðrun og stýri og reyndist hann mjög vel við þær aðstæður. Þegar þær versnuðu svo til muna gróf hann sig niður vegna þyngdarinnar og þurfti að beita vel útfærðri driflínu hans til að losa hann.

Dýrari en samkeppnin

Það getur verið erfitt að bera Range Rover Sport PHEV saman við aðra sportjeppa. Þótt að samkvæmt nafninu mætti ætla að hann sé að keppa við Coupe útfærslur helstu keppinauta, bíla eins og BMW X6 og Audi Q8 má eiginlega frekar segja að hann keppi frekar við aðra tengiltvinnjeppa í flokki lúxusmerkja. Þess vegna er kannski helstu keppinautur hans Volvo XC90 T8 enda margt líkt með þessum bílum. Má þar til dæmis nefna svipaða vél í stærð og afli. Þegar verðið er hins vegar skoðað er ljóst að sá sænski hefur vinninginn og gott betur en það, enda munar 2,5 milljónum á bílunum í grunnútfærslum sínum. Aðrir keppinautar eru Audi Q7 e-tron, BMW X5 40e og Porsche Cayenne S E-Hybrid.

Nýjar 21 tommu felgur eru sérlega glæsilegar og setja mikinn svip á bílinn.

Tækniupplýsingar

Verð frá:                     13.190.000 kr.          
Vél:                              1.997 rsm
Hestöfl:                       399 við 1.500 sn.
Newtonmetrar:          640 við 1.500-3.500sn.
0-100 k á klst:           6,7 sek.
Hámarkshraði:           220 km
CO2:                            64 g/km
Eigin þyngd:              2.539 kg                 
L/B/H                         4879/1984/1803 mm
Eyðsla bl ak:               8,3 l/100 km

Myndir: © Tryggvi Þormóðsson
Drónamyndband: © Þormóður Áki Njálsson