Það er óhætt að segja að BMW X5 er enn skemmtilegri að keyra en áður og hann nýtur sín vel í flestum akstursaðstæðum.

BMW X5 er bíll sem getur státað af því að vera viðmið þegar kemur að lúxusjeppum. Hann var nokkurs konar frumherji fyrir sportlega lúxusjeppa þegar hann kom á markað um aldamótin og fyrir undirritaðan er ógleymanleg frumsýning hans í gamalli lestarstöð í Genf, degi fyrir bílasýninguna stóru þar sem að hann var kynntur með því að stökkva gegnum hring inná sviðið. Það var á fyrsta ári manns í bílablaðamennsku og gegnum tíðina hefur maður prófað margar útgáfur hans og fyrri kynslóðirnar þrjár. Nú er komið að fjórðu kynslóðinni G05 X5 sem byggir á nýjum CLAR undirvagni sem aðrar X-gerðir BMW nota einnig.

Grillið er meira áberandi en áður.

Endurhannaður frá grunni

Þriggja lítra dísilvélin er í senn öflug, þýðgeng og eyðslugrönn.

Óhætt er að segja að tæknimenn BMW fengu lausar hendur þegar kom að hönnun nýs X5, en bíllinn er allur nýr fyrir utan vélar og gírkassa, sem einnig fengu reyndar yfirhalningu. Vélarnar í boði eru þrjár, fjögurra lítra sex strokka bensínvél með forþjöppu, þriggja lítra dísilvél og svo M50d með sömu þriggja lítra dísilvélinni sem með fjórum forþjöppum skilar 400 hestöflum. Nýr X5 fær líka loftpúðafjöðrun í fyrsta skipti í bæði 40i og 30d en M50d er aðeins búinn hefðbundinni gormafjöðrun með fjölstillanlegum dempurum eins og áður. Að því sögðu er BMW X5 skemmtilegur akstursbíll þrátt fyrir sín 2,2 tonn. Bíllinn liggur einstaklega vel og fyrir þá sem vilja enn meira grip er nú fjórhjólastýring í boði. Vélin er ansi frískleg og manni líður alls ekki eins og maður sé með stóran lúxusjeppa í höndunum. Bremsurnar eru nú alveg rafstýrðar líkt og í nýju 8-línunni svo að þær geta nýtt næstu kynslóð akstursaðstoðar. Það var aðallega ein slík sem fór í taugarnar á undirrituðum í akstri en akreinavarinn er svo virkur ef reynt er að skipta um akrein án stefnuljóss að maður lendir bókstaflega í átökum við stýrið.

Vel heppnað og rúmgott innanrými

Hönnunin á miðjustokk er flott og efnisvalið í hæsta gæðaflokki.

Innandyra tekst hönnuðum BMW einstaklega vel til og mælaborðið er í senn tæknilega fullkomið og smekklegt í einfaldleika sínum. Þægileg tilbreyting frá mælaborðum sumra lúxusjeppa sem minna helst á stjórnborð í Star Trek geimskipi. Ef eitthvað, er stundum erfitt að lesa á smátt letrið á tökkunum, nema að maður sé farinn að missa sjón með aldrinum. Yfirbragðið er fágað með mjúkri áferð hvar sem hendi er á komið. Sætin eru fjölstillanleg og einstaklega þægileg og það sem meira er, rétt staðsett og góður stuðningur að stórum millistokknum. Gírhnúðurinn er ekki lengur hnúður heldur glerhnullungur sem gefur framúrstefnulegt útlit með bjartri díóðulýsingunni innandyra. Sjónlínuskjárinn sýnir mikið magn upplýsinga og í raun svo mikið að hann getur virkað truflandi stundum. Annars er allt innan seilingar og vel staðsett innandyra fyrir utan að BMW fellur í sömu gryfju og margir aðrir bílar í þessum flokki, að hafa aðeins eitt handfang á hurðinni, en þær eru svo stórar að það er ekki fyrir hvern sem er að teygja sig í handfangið. Afturí er plássið mjög gott enda bíllinn breiðari en áður og það er lúxus í svona bíl að hafa gott höfuðrými, sem nóg er af í X5. Vel fer einnig um börnin þar sem að gluggasylla er lægri en áður og hliðarrúður afturí opnast alveg niður. Sama má segja um vel heppnað farangursrýmið þar sem tvöföld opnun afturhlera gerir það þægilegt að setja inn þungar töskur án þess að eiga á hættu að skemma eða rispa stuðara. Auðvelt er að fella niður aftursæti með einu handtaki og víða má finna festingar og króka sem haganlega er fyrirkomið.

Það er gott pláss í farangursrými og neðri flipinn á skotthleranum gerir aðgengi með stærri hluti þægilegri.

Margmiðlun fær nýja merkingu

Þegar kemur að tækninýjungum er þessi bíll sér á parti. Gefur hann orðinu margmiðlun alveg nýja merkingu. Sem dæmi má nefna að hægt er að stjórna aðgerðum á fimm mismunandi vegu. Það er hægt að stjórna snertiskjá í miðjustokk með fingrunum, en einnig með handahreyfingum fyrir framan skjáinn. Þeir sem vilja hefðbundnari leiðir geta notað skruntakkann í miðjustokknum eða flýtihnappa í stýri. Loks er hægt að raddstýra aðgerðum með því að kalla “Hey BMW” og segja svo hvað maður vill. Því miður er viðmótið innandyra enn sem komið er aðeins fyrir iPhone síma, en það skýtur skökku við að símaopnun á hurðum er aðeins fyrir Android. Þarf maður þá að eiga tvo síma til að eiga þennan bíl? Það er mikið um sniðugar útfærslur eins og fjöltengi í baki framsæta þar sem farþegar í afturstæti geta komið fyrir festingu fyrir iPad með einu handtaki og hlaðið hann með USB tengi. Einnig er hægt að fá tengihluti eins og herðatré svo eitthvað sé nefnt. Verðið á nýjum BMW X5 byrjar í 11.890.000 kr fyrir 30d og fer uppí 13.990.000 fyrir 40i, en fyrir grunngerð M50d þarf að punga út 16.490.000 kr. Það er því ljóst að nýr X5 hefur hækkað aðeins en herlegheitin eru vel þess virði.

Tækniupplýsingar

Verð frá:                     11.890.000 kr.          
Vél:                              2.993 rsm
Hestöfl:                       265 við 4.000 sn.
Newtonmetrar:          620 við 2.000-2.500sn.
0-100 k á klst:           6,5 sek.
Hámarkshraði:           230 km
CO2:                            158 g/km
Eigin þyngd:              2.135 kg                 
L/B/H                         4922/2004/1745 mm
Eyðsla bl ak:               6 l/100 km