Fjöðrunin tekur vel við öllum ójöfnum og hefur sjálfstæð fjöðrun að framan mikið að segja

Önnur kynslóð Mercedes-Benz G-línu var frumsýnd fyrir rétt um ári síðan á bílasýningunni í Detroit og á Íslandi 27. september síðastliðinn á Kjarvalsstöðum. Það er nokkuð sérstakt að jeppinn skuli eiga 40 ára afmæli á þessu ári og að fyrri kynslóð hans hafi verið svona lengi við lýði. Má því segja að tími hafi verið komið á breytingar, en sumir leikmenn kunna eflaust að spyrja, hvaða breytingar? Víst er útlit hans mjög svipað fyrri kynslóð þótt að það sjáist greinilega nýtísku ljósabúnaður utandyra og tölvuvætt mælaborð innandyra. Kannski sést best á því hversu lítið bíllinn breyttist útlitslega að Mercedes skuli hafa notað sama módelnúmer (W463) áfram.

Á malarvegi er jeppinn laus við mikið glamur frá smásteinum en gæta þarf að aflinu í lausamöl.

Stærri og meira í hann lagt

Þegar nánar er að gáð er það fátt sem ekki var breytt eða bætt í þessum bíl. Hönnuðir Mercedes ganga reyndar svo langt að segja að það séu aðeins fmm hlutir í bílnum sem ekki voru endurhannaðir. Ef við byrjum á að skoða stærðartölur er greinilegt að ný kynslóð G-línu hefur stækkað talsvert. Hann er 121 mm breiðari og munar mest um það frá fyrstu kynslóðinni. Hann er líka 53 mm lengri og veghæð er nú 6 mm meiri. Önnur kynslóð G-línu er líka 170 kílóum léttari þrátt fyrir meiri staðalbúnað. Satt best að segja finnast breytingarnar helst þegar sest er upp í bílinn. Sætin eru stærri og þægiegri, úr nappa leðri og fáanleg með nuddi. Hann líka virkar allur þéttari og frágangur enn betri en áður enda var markið sett að ná svipuðum staðli og í S-línunni. Þegar hurðum er lokað gerist það með þéttum dynk og það fer ekki fram hjá manni að bíllinn er vel hljóðeinangraður. Það er meira pláss í aftursætum en áður og þótt farangursrýmið sé ekki það stærsta í flokknum er það mjög aðgengilegt. Augljósasta breytingin innandyra er á mælaborði, en bílinn var prófaður með nýja Panorama mælaborðinu. Það ásamt gnótt díóðuljósa sem breyta um lit setja mikinn svip á bílinn innandyra.

Nýtt Panorama mælaborð gefur góða yfirsýn og allt er úr hágæða efnum.

Torfærutröll með pjáturstuðara

Hér er jeppinn kominn ofan í ánna og er að ýta lausu íshröngli á undan sér.

Aðrar veigamiklar breytingar sem ekki eru eins sjáanlegar eru á fjöðrun, en nú er sjálfstæð fjöðrun að framan í stað heils öxuls, sem áfram er við lýði að aftanverðu. Einnig voru gírhlutföll í lágadrifinu færð úr 2,1:1 í 2,9:1. Hægt er að læsa mismunadrifi á þrenna vegu, á aftur- og framdrifi og í millikassa. G-línan er einn af fáum jeppum núorðið þar sem þetta er ennþá hægt. Þar sem að vaðdýpt hans er allt að 700 mm með nýjum búnaði sem lokar á lægri loftinntökin þegar bíllinn skynjar djúpt vatn, hafði undirritaður hugsað sér að láta reyna á það við réttar aðstæður og þá kanna drifgetu hans um leið. Var því valið að fara upp með Lyngdalsá en þar má finna nokkur góð vöð sem reyna á alvöru jeppa eins og þennan. Veðrið þennan dag var fallegt og heiðskýrt með hitastigið rétt um frostmark. Það var nokkuð íshröngl í ánni en hana var samt ekki farið að leggja hana.  Eftir tvær ferðir yfir ánna þar sem farið var fetið í lággírnum komu þó í ljós skemmdir á plaststuðaranum. Annað loftinntakið og stuðarinn öðru megin höfðu færst til, pjáturhlíf öðru megin dottið af og skemmdir voru á plasthlíf undir vélinni. Þyrfti því frágangur á framenda bílsins að vera mun betri til að hann sé nothæfur í þess háttar torfærum. Honum til hróss fór hann léttilega yfir sem er gott fyrir óbreyttan jeppa, en nokkuð breyttur jeppi sem kom í kjölfarið hætti við þegar hann var kominn að ánni. Þurfti aðeins að læsa millikassa til að hann færi yfir. Annars er G-línan mjög ljúf í akstri og alls ekki neinn skriðdreki að keyra. Hann leggur vel á og stýrið er lipurt enda nú með rafmagnsaðstoð. Vélin malar eins og köttur og urrar eins og ljón þegar á þarf að halda. V8 vélin er sú sama og í fyrri kynslóð með lítilsháttar breytingum en við hana er nú nýmóðins, níu þrepa sjálfskipting sem fer einstaklega vel með þessum bíl.

Farangursrými er ekki af skornum skammti í G-línunni og aðgengi er gott.

Stendur sér í samkeppni

Keppinautar Mercedes-Benz G-línu eru helst tveir hérlendis, en það eru Porsche Cayenne og Range Rover. G-línan kostar frá 22.360.000 kr og bíllinn sem við prófuðum var langleiðina í 36.000.000 kr. með öllum aukabúnaðinum sem hægt var að fá í þessa bíla. Grunnverð Range Rover í fullvaxinni útgáfu er 21.190.000 kr. en ekki var hægt að fá uppgefið grunnverð Cayenne S enn sem komið er, þar sem ný kynslóð er væntanleg til landsins. Þegar horft er á hvað mikið fæst í grunninn á Mercedes-Benz G-línu, sérstaklega í driflínu hans er auðvelt að sjá að það eru góð kaup í þessum bíl. Til að nýta hann sem best er þó vænlegt að skoða að kaupa veigameiri stuðara eða hlífar undir bílinn, sem fá má á síðum eins og vikingoffroad.com, carid.com og g-wagenaccessories.com svo eitthvað sé nefnt. Spurningin er hversu margir munu nýta sér torfærugetu hans, líklega fleiri þó hérlendis en erlendis.

G-línan er mikið torfærutæki og þar sem hann er hannaður upphaflega sem hernaðartæki er hann ekkert feiminn við smá sull.

Tækniupplýsingar

Verð frá:                     22.360.000 kr.          
Vél:                              3,982 rsm V8
Hestöfl:                       422 við 6000 sn.
Newtonmetrar:          610 við 2.500-3.500sn.
0-100 k á klst:           5,5 sek.
Hámarkshraði:           250 km
CO2:                            299 g/km
Eigin þyngd:              2.560 kg                 
L/B/H                         5112/2016/1638 mm
Eyðsla bl ak:               21,4 l/100 km