Þótt að framleiðsla rafbíla í dag sé aðeins örsmá prósenta þess sem framleitt er á heimsvísu er þess stutt að bíða að hlutföllin fari að snúast við, rafbílnum í hag. Daimler Group framleiðir bæði Mercedes-Benz og Smart bíla og þróunardeild hefur samkvæmt þýska bílatímaritinu Auto Motor und Sport, engin áform um að þróa frekar hefðbundnar vélar með sprengihreyfli. Svipað er uppi á teningnum hjá fleiri framleiðendum eins og Volkswagen sem dæmi. Þar á bæ fer síðasti nýi sprengihreyfillinn á markað árið 2026 samkvæmt áætlunum þeirra. Volvo tilkynnti um það strax í fyrra að dísilvélalína þeirra væri sú síðasta sem þróuð verður hjá framleiðandanum. Þess er stutt að bíða að salir bílaumboða hafi á boðstólum jafn marga rafdrifna bíla og bíla knúna sprengihreyfli og ef við tökum tebgiltvinnbíla með í reikninginn er það bara handan við hornið. Hvort allir bílaáhugamenn séu sáttir við þessa þróun skal ósagt látið, en framtíð sem er drifin áfram af rafmagni er fyrirsjáanleg. Hér á Íslandi höfum við í raun og veru einstakt tækifæri á að vera með fyrstu þjóðum til að ná meirihluta bíla knúna rafmagni. Treystir þú þér lesandi góður til að giska hvenær sú dagsetning kemur?