Í dag hófust réttarhöld í Þýskalandi gegn bílarisanum Volkswagen vegna hneykslisins sem kallað hefur verið Dieselgate. Það sækja eigendur bíla frá framleiðandnanum um bætur í hópmálsókn gegn fyrirtækinu. Útkoma réttarhaldanna mun hafa áhrif á systurmerki VW eins og Audi, Porsche, Seat og Skoda auk þess að hafa áhrif á hvernig málsóknir gegn VW fara fram í öðrum Evrópulöndum. VW Group hefur þegar náð samkomulagi við eigendur VW bíla í Bandaríkjunum og Ástralíu en VW telur að annað regluverk nái yfir bíla selda í Evrópu og þar beri þeir ekki eins mikla ábyrgð á hugsanlegu fjárhagslegu tjóni VW eigenda. Dieselgate hefur kostað VW Group meira en 30 milljarða punda samkvæmt vefmiðlinum Autocar, en fyrirtækið hefur aðeins lagt brot af þeirri upphæð til hliðar til að undirbúa sig vegna málsóknarinnar í Þýskalandi. Þar eru meira en 400.000 einstaklingar sem standa að málsókninni en 100.000 í viðbót hyggjast sækja mál sín óstuddir. Til að bera fjárhagslega ábyrgð þarf að sannast að VW hafi með aðgerðum sínum haft áhrif á eyðslu eða endingu bílanna og að endursöluverð þeirra hafi lækkað. VW segir á móti að aðgerðir þeirra hafi verið til að lækka nituroxíð innihald í útblæstri sem ekki hafi áhrif á ofangreint.