Mitsubishi Motors mun frumsýna nýjan tilraunabíl á Tokyo Motor Show í lok þessa mánaðar en bíllinn verður fjórhjóladrifinn tengiltvinnbíll. Bíllinn er með jepplingslagi og kallast Mi-Tech en hann er óvenjulegur að því leyti að hann er búinn bensínvél með forþjöppu sem knýr áfram fjóra rafmótora. Einn mótor er á hvert hjól sem að gefur ökumanni möguleika á að nota bílinn á rafmagni eingöngu eða með bæði rafmótorum og bensínvélinni svo að afl skilar sér betur til hjólanna að sögn Mitsubishi Motors. Framleiðandinn sem var framarlega í driflínum og gírkössum á árum áður vill byggja á fyrri reynslu til að ná betri fótfestu í ört vaxandi samkeppni á rafbílamarkaði. Tölvugerð mynd af bílnum sýnir kúpulaga yfirbyggingu, tvískipta framrúðu og stórar hjólaskálar.