Kostir: Hljóðlátur, skjábúnaður, aksturseiginleikar
Gallar: Stutt seta framsæta, takki fyrir hljómstyrk, Start-Stop búnaður

Ný kynslóð Range Rover Evoque var kynnt fyrir blaðamönnum í vor og kom bíllinn nýlega til landsins í fyrsta skipti. Billinn.is tók þennan fallega jeppling til prófunar á dögunum og óku honum yfir 300 km við ýmsar aðstæður. Bíllinn sækir svo ekki sé um villst útlit sitt til stóra bróðursins Range Rover Velar og er Evoque eins og smækkuð útgáfa hans, enda minnsti jeppinn í Land Rover fjölskyldunni. Hann hefur notið mikilla vinsælda síðan að hann kom á markað vorið 2011 og fyrsta kynslóðin seldist í 800.000 eintökum svo að hönnuðum Land Rover er vel ljóst að vel þarf að takast til með næstu kynslóð.

Flott hönnun á innréttingu

Mælaborðið kemur beint úr Range Rover Velar og eru tveir snertiskjáir auk upplýsingaskjás í mælaborðinu.

Að innan er samlíkingin við Velar allsráðandi og ekki aðeins efnisvalið og uppsetning þess svipað heldur fær Evoque samskonar skjábúnað og í Range Rover Velar og fleiri jeppum Land Rover. Skjáirnir eru þrír, einn í mælaborði og svo tveir í miðjustokki, annar fyrir margmiðlun eins og síma, leiðsögukerfi og hljómtæki og sá neðri fyrir miðstöð, aksturstölvu og fleira. Mjög auðvelt er að nota viðmót þessara margmiðlunarskjáa og snjöll útfærsla á skruntökkunum tveimur á neðri skjánum gerir notandanum kleift að nota þá á fleiri en einn vegu. Þriðji takkinn er svo takki fyrir hljóðstyrk en hann er fyrir miðju og er falinn á bakvið gírskiptinguna, svo að beita þarf hendinni með afkáralegum hætti til að ná til hans. Er hann eini ljóðurinn á annars vel útfærðri innréttingu. Reyndar er fjórði skjárinn fyrir hendi í Evoque í dýrari útfærslum en það er skjár sem tengur er við víðlinsu aftan á bílnum og er í baksýnisspegli bílsins. Bætir hann mjög útsýni aftan við bílinn sem gæti verið betra og óhætt að mæla með að kaupendur velji þann möguleika. Annars er útsýni aftur betra en ætla mætti þegar horft er á bílinn utanfrá. Axlarlína er há og hækkar eftir því sem aftar dregur og B-biti er mjög breiður en góð framrúða og vel staðsettir og stórir hliðarspeglar bæta útsýni fram á við.

Það munar mikið um gleiðlinsuna fyrir baksýnisspegilinn þegar kemur að útsýni aftan við bílinn, sérstaklega í akstri á þjóðvegum.

Þegar kemur að plássi í Range Rover Evoque en augljóst að horft er til að kaupendahópur hans séu konur að meirihluta og því er setan í framsætum styttri og hentar eflaust ekki þeim sem stærri eru. Plássið í aftursætum er mjög gott enda hjólhafið 20 mm meira en áður og bíllinn hefur líka stækkað á flesta kanta þótt útlitið fái að halda sér. Meira hjólhaf þýðir að plássið í aftursætum er betra en áður. Hólf eru ekki af skornum skammti og pláss fyrir stærri hluti eins og flöskur, spjaldtölvur og þess háttar. Farangursrými er betra en áður og er búið góðu varadekki.

Farangursrými er rúmbetra frá fyrri kynslóð eða 591 lítri alls.

Með hljóðlátari bílum

Litla 150 hestafla dísilvélin skilar ágætlega sínu og hennar helsti kostur er hversu eyðslugrönn hún er en eyðsla í blönduðum akstri er aðeins 5,7 lítrar.

Ökumanni verður fljótt ljóst að nýr Evoque er sportlegur bíll og betrungur á við fyrri kynslóð. Undirvagninn er nýr og ekki aðeins úr stáli heldur er fremsti hluti grindarinnar úr áli. Auk þess hefur hönnuðum Land Rover tekist að létta bílinn mikið og þar sem það skiptir máli. Til að mynda er hluti fjöðrunarinnar úr áli og léttmálmar í bremsum sem skiptir miklu þegar kemur að aksturseiginleikum bílsins. Hann er næmur í stýri enda aðeins rúmir tveir hringir borð í borð. Í takt við það liggur hann vel á vegi á rafstilltum dempurunum og endurhannaðri McPherson fjöðruninni. Bíllinn var prófaður með 150 hestafla vélinni sem skilar vel sínu en skiptingin mætti vera fljótari að taka við sér þegar á reynir. Eitt sem pirraði mann aðeins var hversu fljótt bíllinn drap á sér á ljósum. Start-Stop búnaðurinn er tengdur við milt Hybrid kerfi og slekkur það á vélinni talsvert áður en bíllinn hefur stöðvað. Það setur þar að auki bílinn ekki í gang aftur fyrr en stigið er á bensíngjöfina, ólíkt því sem gerist í flestum öðrum bílum sem fara í gang þegar takið af bremsunni er losað. Fyrir vikið er bíllinn seinni að taka við sér sem gæti komið sér illa á slæmum stað í vinstri beygju á ljósum til að mynda. Range Rover Evoque er einstaklega hljóðlátur bíll, svo hljóðlátur reyndar að það var fyrst eins og stefnuljósin væru of hávaðasöm.

Útstigið úr bílnum er þægilegt þar sem að ekki þarf að lyfta fótunum yfir neinn kant.

Evoque og samkeppnin

Helstu keppinautar Range Rover Evoque hérlendis eru þrír, Audi Q3, BMW X1 og Volvo XC40. Uppgefið grunnverð á Evoque er 6.990.000 kr og er aðeins fyrir fjórhjóladrifsútgáfuna með sjálfskiptingu og því verður að miða við það þegar það er borið saman við samkeppnina. Grunnverð Audi Q3 er 5.990.000 kr en 6.290.000 kr sjálfskiptur með framdrifi. Með quattro fjórhjóladrifinu er Q3 hins vegar kominn í 7.990.000 kr. BMW X1 kostar 5.890.000 kr í grunninn en 6.590.000 kr með xDrive. Grunnverð Volvo XC40 er loks 5.190.000 kr en 6.590.00 kr með fjórhjóladrifinu. Þótt verðið á Evoque sé því í hærri kantinum er það alls ekki óeðlilegt þegar horft er til stærðar, búnaðar og efnisvals.

Tækniupplýsingar

Verð frá:                     6.990.000 kr.          
Vél:                              1.999 rsm
Hestöfl:                       150
Newtonmetrar:          380
0-100 k á klst:           11,2 sek.
Hámarkshraði:           196 km
CO2:                            149 g/km
Eigin þyngd:              1.860 kg                 
L/B/H                         4371/1996/1649 mm
Eyðsla bl ak:               5,7 l/100 km

Myndir ©Tryggvi Þormóðsson