Fyrsti rafbíll kóranska bílarisans SsangYong mun koma á markað árið 2021 en það verður Korando jepplingurinn. Hann mun einfaldlega kallast E100 og hann verður með 188 hestafla rafmótor, sem er 27 hestöflum meira en 1,5 lítra bensínvélin í sama bíl. SsangYong nýtur þess að indverski risinn Mahindra á ráðandi hlut í merkinu, en Mahindra tekur meðal annars þátt af krafti í Formula E. Rafhlaðan mun koma frá LG Chem og er 61,5 kílówattsstundir. Það mun duga fyrir 420 km drægni að sögn talsmanna SsangYong. Nýr Korando á engan náinn keppinaut í sínum stærðarflokki en sá bíll sem kemst næst honum er Kia e-Niro. Samhliða munu koma mildar tvinnútgáfur á markað á sama tíma.