Von er á nýjum rafjepplingi frá Volkswagen árið 2021 sem fengið hefur nafnið ID.4 og kemur í kjölfar ID.3 sem fer í sölu á nýju ári. VW birti kynningarmynd af bílnum á bílasýningunni í Guangzhou í Kína sem er sú besta sem birst hefur af honum hingað til. Bíllinn líkist talsvert ID.3 með svipuðum díóðuljósum og framenda. Að hluta til byggir ID.4 á ID. Crozz tilraunabílnum sem sýndur var 2017 í Shanghai. Ef ID.4 fær sömu rafmótora mun hann skila 302 hestöflum og hafa um það bil 500 km drægni. ID.4 verður með MEB undirvagninn sem þýðir möguleika á einum eða fleiri mótorum. Í dag býður MEB undirvagninn uppá 45-77 kílówattstunda rafhlöðu sem þýðir 320-480 km drægni.