Bílabreytingafyrirtækið Hennessay ætlar að frumsýna nýja útgáfu Jeep Gladiator á SEMA bílasýningunni í Las Vegas í vikunni. Það dugir ekkert minna nafn en Maximus fyrir jeppann því að ofan í vélarsalinn er kominn 6,2 lítra Hellcat vél sem skilar 1000 hestöflum. Ekki nóg með það heldur er togið hrikalegt líka eða 1265 Newtonmetrar. Með átta þrepa sjálfskiptingu á þetta goðumlíka farartæki að ná 100 km hraða á aðeins 3,9 sekúndum sem gerir hann að öflugasta pallbíl sem við höfum séð. Undir bílinn fer svo fjöðrunarkerfi frá King sem hækkar bílinn um sex tommur. Til að tryggja að ekkert snúist í sundur eru Dana 60 hásingar að framan og aftan. Bíllinn verður aðeins framleiddur í 24 eintökum og mun kosta 28.000.000 kr í Bandaríkjunum.