Aston Martin hefur í samstarfi við Brough Superior mótorhjólaframleiðandann frumsýnt AMB 001 mótorhjólið á EICMA mótorhjólasýningunni í Mílanó. Hjólið verður aðeins framleitt í 100 eintökum og er ekki löglegt fyrir götuakstur. Útlit hjólsins byggir sterklega á útliti Aston Martin bíla og litirnir á hjólinu eru keppnislitir Aston Martin þar sem einungis má nota mótorhjólið á keppnisbrautum. Hönnunin er sérstök, með tvöfaldri klafafjöðrun að framan og mikilli notkun koltrefjaefna í ytra byrði. Vélin er V2 með forþjöppu og skilar 180 hestöflum og hjólið er aðeins 180 kíló án allra vökva. „Svona eiga einmitt framúrstefnuleg mótorhjól að vera og við erum afar stolt af því að sjá vængi Aston Martin á mótorhjóli í fyrsta skipti“ sagði Marek Reichman forstjóri Aston Martin við frumsýninguna.

Útsýnið úr ökumannssætinu á hinu 180 hestafla mótorhjóli Aston Martin á EICMA mótorhjólasýningunni. Ljósmyndari: Camilla Cerea/Bloomberg Getty Images