Kostir: Framsæti, tog, hljóðlátur
Gallar: Endurspeglun, útsýni fram, fótarými í aftursæti

Mercedes-Benz EQC er fyrst rafmagnsbíll framleiðandans sem er hannaður sem slíkur frá grunni. Myndir: Tryggvi Þormóðsson.

Þótt að nýr Mercedes-Benz EQC sé ekki fyrsti rafmagnsbíll framleiðandans er hann sá fyrsti sem er hannaður frá grunni sem rafbíll, ólíkt B-línunni sem einnig er fáanleg sem bensín- eða dísilbíll. Bíllinn er byggður á botnplötu GLC og er mjög svipaður honum í stærð fyrir utan að vera örlítið lengri. Hann er síðasta viðbótin við samkeppni á lúxusmarkaði rafjeppa eins og Jagúar I-Pace og Audi e-tron. Líkt og í báðum þessum bílum er upplifunin að prófa þessa bíla sér á parti og því ekki skrýtið að þeir hafi verið í efstu sætum í vali á Bíl ársins á þessu ári.

Hátæknivæddur að innan

Mælaborð er með tvöföldum díóðuskjá og flottri díóðulýsingu

Óhætt er að segja að EQC bíllinn sé flottur að innan með tvöföldum díóðuskjá og díóðulýsingu auk nýtískulegs efnisvals. Þó var sumt sem truflaði upplifunina eins og hátalarinn og lofttúðan undir framrúðunni sem er með þannig lit og áferð að það speglast talsvert uppí framrúðuna. Gott er að setjast uppí bílinn fyrir utan stigbretti sem vill flækjast fyrir við útstig og virðist hafa engan tilgang nema fyrir útlitið. Útsýni er annars nokkuð gott fyrir utan A-bita sem eru stórir og samvaxnir við hliðarspegla og hindra því aðeins útsýni fram á við ásamt stórri umgjörð um baksýnisspegil. Plássið frammí er gott og sætin þar eru sérstaklega þægileg.

Það er gott pláss fyrir aftursætisfarþega þótt að fótarými mætti vera meira.

Aftursætin eru nógu breið til að vel fari um þrjá fullorðna en gólfið er hærra og það er stór miðjustokkur í fótarými. Eins mætti höfuðrými vera aðeins meira. Farangursrými er 500 lítrar og þótt það sé i hærra lagi er hluti þess undir gólfi sem eykur á notkunarmöguleika. Einnig er þægilegt að setja stærri hluti uppí rýmið þar sem það er engin sylla til að flækjast fyrir. Loks er auðvelt að fella niður þrískipt aftursætin til að búa til meira rými með flötu gólfi frameftir bílnum.

Gólfið í farangursrýminu er í hærra lagi en gólfið er slétt og aðgengilegt.

Tekur tíma að læra á hann

Það tekur nokkra stund að læra á EQC og venjast á að nota hann rétt. Fyrir það fyrsta er uppsetning í káetu í dæmigerðum Benz stíl með gírskiptinguna í stöng hægra megin við stýrið og sætisstillingar í hurðinni, ekkert sem kemur á óvart þar. Við þetta bætist stjórnkerfi fyrir upplýsingaskjá sem hægt er að stýra á marga vegu, til dæmis gegnum stýri eða með snertiplatta í miðjustokki. Hann er reyndar staðsettur akkúrat þar sem maður vill helst hvíla hægri hendina svo að stundum var maður að reka sig í hann. Best er að nota raddstýringuna sem kveikt er á með því einu að segja Mercedes, og hún er nokkuð dugleg að skilja mátulega bjagaða ensku dæmigerð íslendings sem hlýtur að vera kostur með slíkum búnaði.

Gott er að nota snertiplatta til að stýra aðgerðum á skjá.

Loks eru akstursstillingar hans sérkapítuli, en þær eru fimm talsins, þæginda, sport, sparnaðar, hámarksdrægni og þín eigin stilling. Við það bætast fimm hleðslustillingar sem stýrt er með blöðkum er líkjast blöðkum fyrir sjálfskiptingu í stýri, og nota má eins og niðurgírun til að hámarka mögulega hleðslu inná rafhlöðuna.

Gott tog og hljóðlátur

Bíllinn er aðeins undirstýrður ef lagt er snöggt á hann enda tæp 2,5 tonn að þyngd.

En hvernig er að keyra og nota þennan bíl? Kostir hans eru þægindi og hversu hljóðlátur hann er ásamt miklu togi sem skilar sér vel í góðu upptaki á nánast hvaða hraða sem er. Til dæmis virkar millihröðun hans meiri en hjá öðrum bílum í hans flokki. Fjöðrunin er einnig með áherslu á þægindi sem þýðir að hún er ekkert sérlega sátt við að tekið sé á bílnum. Hann virkar undirstýrður ef farið er snöggt í krappa beygju og betra er að fara ekki of hratt á verstu hraðahindranirnar svo það komi ekki bakslag í fjöðrunina. Stýrið er létt og þægilegt innanbæjar en hann virkar örlítið laus í stýri í akstri á þjóðvegi. Bíllinn er búinn fjórhjóladrifi en keyrir nánast eingöngu á framdrifinu í hefðbundnum akstri. Mótorarnir eru tveir og er sá aftari með meira tog en sá fremri. Ef gefið er snöggt inn færist átakið að miklu leyti á afturöxulinn og þá hefur bíllinn úr 402 hestöflum að spila og það sem er meira um vert, 765 Newtonmetra togi. Það er talsvert meira enn í helstu keppinautum hans hérlendis, Jagúar I-Pace og Audi e-tron. EQC er einstaklega hljóðlátur og nánast alveg laus við vindhljóð sem er afrek í bíl sem er hljóðlátur fyrir. Það er ekkert verið að búa til hljóð eins og í Jagúar I-Pace heldur er hugsað um að gera aksturinn eins hljóðlátan og völ er á.

Stendur sig vel í samanburði

Undir húddinu er önnur hlíf fyrir framdrifsmótorinn og aðeins er hægt að sjá stúta fyrir rúðupiss og miðstöð, auk plústengis.

Hægt er að hlaða bílinn við venjulega heimainnstungu en þannig tekur um 11 klukkustundir að fullhlaða bílinn sem er styttra en í Jagúar I-Pace. Bíllinn var hlaðinn tvisvar yfir nótt á meðan hann var í prófun og þótt að hann sýndi fulla hleðslu eftir fyrra skiptið var áætluð drægni samkvæmt upplýsingaskjá aðeins 264 km en tekið skal fram að það var kalt í veðri. Uppgefin drægni samkvæmt WLTP staðli er þónokkuð betri eða 417 km sem er á pari við samkeppnina. Bíllinn sem við prófuðum var svokölluð 1886 útfærsla sem kom aðeins í 20 eintökum hingað til lands og er ekki lengur fáanleg. Núna er hann í boði í þremur útfærslum, Pure sem kostar 9.290.000 kr, Progressive sem er á 10.450.000 kr og loks Power sem kostar 11.690.000 kr. Ef horft er á grunnverðið kemur EQC vel út úr samanburðinum því að keppinautarnir eru um hálfri milljón dýrari. Audi e-tron 55 kostar frá 9.790.000 kr og Jagúar I-Pace einnig.

Tækniupplýsingar:

Grunnverð:                             9.290.000 kr.
Drægni skv. WLTP:                  417 km.
Hleðslutími 7kW:                    11 klst.
Hámarkshraði:                        180 km.
Hröðun 0-100 km:                  5, 1 sek.
Rafhlaða:                                 80 kWh
Hámarksafl:                             402 hestöfl
Hámarkstog:                           765 Newtonmetar
Eigin þyngd:                            2.425 kg.
L/B/H:                                     4.761/1.884/1.623 mm
Hjólhaf:                                   2.873 mm.
Farangursrými:                       500 lítrar