Ford ætlar að frumsýna nýjan rafbíl þann 18. nóvember næstkomandi sem kallast Mach E og byggir að nokkru leyti á útliti Mustang sportbílsins. Nýlega náðust njósnamyndir af prófunarbíl í felulitum sem eru bestu myndirnar hingað til af Mach E og sýna nokkuð vel útlit hans. Eins og sjá má á hann það sameiginlegt með Mustang að vera með langa vélarhlíf, niðurhallandi framenda og þrískipt afturljósin. Einu tækniupplýsingarnar frá Ford um bílinn eru þær að hann mun hafa 600 km drægni samkvæmt WLTP prófunarstaðlinum. Bíllinn mun koma á markað á næsta ári og keppa við Jagúar I-Pace og Mercedes-Benz EQC.

Afturendinn er mjög líkur Mustang sportbílnum eins og sést á afturljósunum.