Fjórða kynslóð Skoda Oktavía var frumsýnd í kvöld full af nýrri tækni auk þess að vera nú fáanlegur sem tengiltvinnbíll. Skoda Oktavía er miðpunkturinn í sölukerfi Skoda enda hefur bíllinn selst í meira en sex milljón eintökum síðan að hann var frumsýndur árið 1996. Útlitið er nú orðið keimlíkt Superb og Scala og er bíllinn búinn díóðuljósum að framan sem staðalbúnaði. Þrátt fyrir að bíllinn sé lægri en áður er hann rúmbetri að sögn tæknimanna Skoda. Hann er 4.690 mm að lengd, bæði sem hlaðbakur og langbakur sem er 19 mm lengra en fyrri kynslóð. Auk þess er hann 15 mm breiðari sem þýðir að farangursrými er nú 30 lítrum stærra. Tveir 10,25 tommu skjáir eru í bílnum og framrúðuskjár í sumum útgáfum. Bíllinn er nettengdur og í fyrsta skipti er þrískipt miðstöð eins og í Superb. Bíllinn er byggður á sama undirvagni og ný kynslóð Golf sem þýðir að hann verður fáanlegur einnig með mildri tvinntækni auk tengiltvinnútgáfu. Öflugasta dísilvélin verður 197 hestöfl en bensínvélin 187 hestöfl.