BMW hefur tilkynnt að i4 rafbíllinn fari í sölu eftir tvö ár en hann verður kynntur árið 2021, líklega á bílasýningunni í Genf. BMW hefur einnig gefið út nokkrar tækniupplýsingar um bílinn eins og að hann verður 523 hestöfl. BMW i4 er settur til höfuðs Tesla Model S og því verður hann að hafa góða drægni en tæknimenn BMW segja að hann muni hafa 600 km drægni. Það er betra en hjá Porsche Taycan eða Tesla Model S sem teljast verða höfuðkeppinautarnir. Í bílnum verða fimmta kynslóð rafmótora frá BMW og rafhlaðan verður 80 kWh en undirvagninn er kallaður CLAR og mun hann fara undir flestar línur BMW á næstu árum. BMW segir að bíllinn sé hannaður með að vera léttari en aðrir rafbílar og mun rafhlaðan aðeins vera 550 kg en það þýðir að upptakið verður í kringum 4 sekúndur. Hægt verður að hlaða bílinn á 150 kW hleðslustöðvum sem þýðir að hægt verður að hlaða hann upp að 80% á aðeins 35 mínútum.