Það var Tesla Model 3 sem vann titilinn Bíll fólksins hjá frændum okkar í Noregi í gær. Model 3 vann með yfirburðum sem ekki hafa sést áður í þessu vali en næstum 40% völdu hann í efsta sæti. Þetta þarf ekki að koma á óvart því að bíllinn er mest seldi bíll Noregs á þessu ári en á fyrstu tíu mánuðum ársins hafa 13.980 eintök selst, sem er vel yfir allri sölu bíla á Íslandi í ár. Hvort að Tesla Model 3 nái efsta sætinu af mest selda bíl Noregs á ársgrundvelli kemur í ljós um áramótin, en árið 1969 seldust 16.699 eintök af VW bjöllu. Tesla hefur þegar tekið framúr VW sem mest selda merkið í Noregi í ár, en 16.857 Tesla bílar hafa selst á móti 16.351 VW bílum. Toyota er þar í þriðja sæti með 12.967 bíla, en þar er það RAV4 sem leiðir sölu Toyota. RAV4 varð í öðru sæti sem Bíll fólksins en Mercedes-Benz EQC varð þriðji. Það eru Dinside og Dagbladet í Noregi sem standa að valinu og munu blaðamenn prófa bílana 34 og velja 10 efstu, en tilkynnt verður um valið á Bíl ársins í Noregi 26. nóvember.