Daimler gæti þurft að innkalla bíla vegna þess að átt hefur veið við tölvubúnað dísilvéla þeirra kom fram í þýska vikuritinu Der Spiegel fyrir helgi, en þó var enginn heimildarmaður tilgreindur fyrir fréttinni. Samgöngustofa Þýskalands KBA er um þessar mundir að rannsaka grunsamlegan hugbúnað sem fannst í smærri dísilvélum Daimler sem keyptar voru af Renault, en þær eru í A og B-línum Mercedes-Benz bíla. Renault vill ekki kannast að átt hafi verið við vélarnar og segir að tölvubúnaður þeirra sé forritaður af tæknimönnum Mercedes. Daimler hefur ekki viljað láta hafa eftir sér annað en það að fyrirtækið gæti ekki útilokað frekari innkallanir af hálfu KBA. Saksóknari í Þýskalandi sektaði Daimler um einn milljarð dollara í september fyrir að eiga við dísilvélar sínar. Réttarhöld vegna hins fjögurra ára dísilhneykslis Volkswagen hófust hins vegar í dag.