Kia er nýkominn með Xceed á markað sem nokkurs konar jepplingsútgáfu Ceed. Þar bætist hann í flóru annarra jepplinga eins og Stonic og Sportage en einnig Niro og Soul. En hver er þá munurinn? Til að byrja með er Kia Xceed ekki jepplingur því hann verður ekki fáanlegur með fjórhjóladrifi. Í raun og veru er hann toguð og teygð útgáfa Ceed enda deila þeir ansi miklu. Munurinn liggur í stærðartölum, Kia Xceed er 85 mm lrngri en Ceed og hefur 35 mm meiri veghæð, en auk þess er skottið 30 lítrum stærra. Líkt og í Mazda CX-30 er útlitið vel heppnað og satt best að segja nokkuð sportlegt. Þegar haft er í huga að markaðssetning Kia fyrir þennan bíl er beint að fólki með áhuga á sportlegum bílum mætti nafnið segja meira en að bíllinn sé einungis stærri útfærsla fólksbílsins.

Það eru rennilegar línur í Kia Xceed og bungan á vélarhlífinni setur kraftasvip á hann. Myndir Tryggvi Þormóðsson.

Það sem vekur fyrst athygli þegar sest er uppí bílinn er hversu þægileg framsætin eru miðað við bíl í þessum stærðarflokki. Þau ná ná vel undir hnésbótina sem er ótvíræður kostur sérstaklega í lengri akstri. Það er vel hugsað fyrir hólfum í hvívetna en minna er hugsað um aftursætisfarþegana sem fá þó niðurfellanlegan miðjustokk með glasahöldum í Style útfærslu. Fótapláss er af skornum skammti og líklega er gert ráð fyrir að bíllinn henti best fjölskyldum með ung börn. Ekki er gert ráð fyrir að þau séu mikið að hlaða síma eða spjaldtölvur því að engin tengi eru fyrir slíkt afturí. Þótt að rafstillanleg framsæti með minni séu ávallt kostur í hvaða bíl sem er var eitt sem passaði samt ekki. Þar sem fótarými mætti gjarnan vera meira í aftursætum var það eiginlega galli að ökumannssæti skyldi færast aðeins aftur við útstig ökumanns, svo þrengdi verulega að fótum fyrir aftan. Farangursrými er svipaðað stærð og í Mazda CX-30 eða 426 lítrar og getur stækkað í 1.378 litra með aftursæti niðri, en hægt er að fella þau niður 40/20/40 sem eykur hagræði við að flutning. Helsti ókosturinn við aðgengi í farangursrými er hversu hátt þarf að lyfta uppí opið, en dýptin þýðir að auðvelt er að koma fyrir töskum af stærri gerðinni. Samt er varadekk í fullri stærð.

Tveir stórir litaskjáir eru ábernadi í mælaborðinu og efnisval er í betra lagi.

Það er gott að keyra venjulegan Kia Ceed og það sama má segja um Xceed, og kemur það nokkuð á óvart þar sem að fjöðrun á að vera mýkri og bíllinn stærri á alla kanta. Bíllinn situr vel í beygjum og það er ekki mikil undirstýring þótt lagt sé snöggt á hann. Talandi um að leggja snöggt á stýrið, að þá virkar stýrið snöggt í hreyfingum í byrjun en hægir á þegar lagt er meira á það. Það er eins og það þrýsti aðeins á móti átaki ökumannsins og fyrir vikið virkar bíllinn aðeins togstýrður. Fjölliða fjöðrun er að aftan en MacPherson turnar að framan, en þeir eru með vökvapúða á framdempurum sem að minnka áhrif á yfirbygginguna þegar bíllinn lendir í holum eða ójöfnum. Sjálfskipting er sjö þrepa með tveimur kúplingum og er hún því eldsnögg að skipta bílnum upp og niður sem eykur við sportlega aksturseiginleika hans. Þegar bíllinn er í Sportstillingu er hann duglegur að gíra niður svo að skiptingar með blöðkum í stýri verða nánast óþarfar. 1,4 lítra vélin er nokkuð spræk með sín 140 hestöfl en eyðsla var að meðaltali 8,3 lítrar á meðan á reynsuakstrinum stóð sem verður að teljast frekar mikið fyrir þennan stærðarflokk.

Bíllinn er lipur í snúningum og liggur vel á vegi en stýrið virkar þungt þegar lagt er á það.

Samkeppnin er aðallega Toyota CHR og Mazda CX-30 sem báðir eru fáanlegir með fjórhjóladrifi ólíkt Kia Xceed sem ekki státar af slíku. Ford Focus Active er líka fjölskyldubíll sem fengið hefur samskonar stækun á alla kanta eins og Xceed, og er einnig bara með framdrifi en grunnverð hans er aðeins 3.690.000 kr. Grunnverð Xceed er 3.990.777 kr, en Toyota CHR er frá 4.463.000 kr. Mazda CX-30 kostar hins vegar frá 4.050.000 kr og er því mun samkeppnishæfari í verði. Kia Cxeed verður þar að auki fánnlegur sem tengiltvinnbíll næsta vor og mun þá kosta 4.390.777 kr í grunnútfærslu sem verður 141 hestafl. Í Style útfærslu er grunnverð bílsins 4.790.777 á sérstöku kynningarverði. Þannig kemur hann með 12,3 tommu skjá í mælaborði og 10,2 tommu upplýsingaskjá, auk rafstillinga með minni í framsætum, skynvæddum hraðastilli, þráðlausri farsímahleðslu, JBL hljómkerfi og ýmislegt fleira. Á því verði eru því ansi góð kaup í þessum bíl þar sem að sjö þrepa sjálfskiptingin er staðalbúnaður.

Farangursrými er með því sem best gerist í flokknum og það er varadekk þarna undir líka.

Kia Xceed 1,4 Style

Kostir: Búnaður, sjálfskipting
Gallar: Eyðsla, ekkert fjórhjóladrif


Grunnverð:                 3.990.777 kr
Hestöfl:                       140/6.000 sn
Tog:                             242 Nm/1.500-3.200 sn
Hröðun 0-100 km       9,5 sek
Hámarkshraði:            200 km
Eyðsla bl.ak.                5,8 lítrar
CO2 losun:                  135 g/km
L/B/H                           4.395/1.826/1.495 mm
Hjólhaf:                       2.650 mm
Dráttargeta:                1.000 kg
Eiginþyngd:                 1.436 kg
Farangursrými:           426 lítrar
Dekk/felgur                 235×45/18

Vélin í Style útfærslu er spræk 1,4 lítra vél með sjö þrepa sjálfskiptingu.