Þeir sem eru eldri en tvævetur gætu hafa séð bílamyndina Cannonball Run en hún fjallar um keppni milli Los Angeles og New York eftir þjóðvegum, sem felur í sér að keppendur þurfa að brjóta umferðarlög til að ná árangri.

Arne Toman og Doug Tabbutt frammí ásamt Berkeley Chadwick í aftursætinu sem gengdi því hlutverki að leita að lögreglubílum.

Á dögunum settu þrír félagar nýtt met á þessari leið þegar þeir óku 700 hestafla Mercedes-Benz E63 AMG stranda á milli á undir 27 og hálfri klukkustund. Til þess að ná þessum árangri þurftu þeir að notast við alls konar tæknibúnað, suman ólöglegan, hugbúnað sem fylgist með umferð og fullkominn myndavélabúnað til að fylgjast með hvort einhver væri að fylgjast með þeim. Leiðin milli Los Angeles og New York er 4.546 km og meðalhraði þeirra á leiðinni var 166 km á klst, með bensínstoppum. Hámarkshraði í Bandaríkjunum er á flestum stöðum aðeins 113 km á klst en sums staðar 129 km svo það var kannski eins gott fyrir þá félaga að enginn sá til þeirra. Spurningin er hins vegar hvað hinn langi armur laganna gerir þegar hann les fréttir af þessu afreki þeirra.