Mótorsportdeild Volkswagen mun hætta að þróa keppnisbíla með brunahreyflum og einbeita sér í staðinn að rafdrifnum keppnisbílum, segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Það þýðir að bílar eins og VW Golf GTI TCR munu þurfa að víkja fyrir bílum með rafmótorum. Golf GTI TCR mun hætta í framleiðslu strax um næstu áramót enda er bíllinn enn af sjöundu kynslóð Golf, en áttunda kynslóð bílsins var frumsýnd í október. VW Polo GTI R5 verður þó eitthvað áfram í framleiðslu fyrir keppnislið í Þýskalandi. Volkswagen mun nú einbeita sér að þróun rafdrifinna keppnisbíla eins og ID.R en þróun raf bíla í keppnum er nauðsynleg fyrir þróun raf bíla á almennan markað. Að sögn Franks Welsch, stjórnarmanns tæknideildar Volkswagen, er þróun á línu raf bíla hafin sem brúar bilið milli hefðbundinna raf bíla og keppnisbíla. Með öðrum orðum má búast við rafdrifnum sporturum frá VW á næstu misserum þótt línan hafi ekki fengið nafn enn þá.