Það eru liðin bráðum þrjú ár síðan að tilraunaútgáfa Genesis GV80 var frumsýndur, en nú hafa myndir af endanlegri útgáfu hans komið frá framleiðandanum. Genesis er lúxusmerki Hyundai og líklegt er að það fari í sölu á næsta ári í Evrópu. Það eru mjög litlar breytingar á útliti framleiðslubílsins og þá helst að framan með áberandi grillinu sem fyrst sást á G90 bílnum. Auk þess er GV80 aðeins stærri en tilraunabíllinn og segja margir að hann líkist mjög Bentley Bentayga. Mælaborðið er sérstakara í útliti með þunnri lofttúðu sem nær yfir þveran bílinn. Breiður upplýsingaskjár situr ofan á gluggasyllunni og stjórnborðið teygir sig upp að honum. Eins er stýrið óvenjulegt með aðeins tveimur pílárum. GV80 fer í sölu strax í janúar í Suður-Kóreu en Evrópa þarf að bíða fram á næsta ár. Ekki hafa verið gefnar upp tækniupplýsingar að svo stöddu en hann er byggður á sama undirvagni og stærri Genesis bílar svo að búast má við V6 vél með tveimur forþjöppum eins og í Kia Stinger til að mynda.