Það munar hressilega um nýja vél í Toyota CHR sem nú kemur með 182 hestafla, tveggja lítra vél. Einnig hefur hann fengið milda andlitslyftingu og betri búnað.

Bíllinn er snarpari í akstri en áður en útlitsbreytingar eru minniháttar.
Myndir: Tryggvi Þormóðsson

Það eru þrjú ár liðin síðan að hinn eftirtektarverði Toyota CHR kom á markað og kannski var kominn tími á smávegis andlitslyftingu, og þó. Bíllinn var framúrstefnulegur fyrir þremur árum og þykir það enn svo að útlitsbreytingar eru litlar. Að framan eru smávægilegar breytingar á grilli og endurhönnuð ljós og að aftan breytingar á stuðara og afturljósum. Loks var vindskeið að aftan máluð svört og nýir litir kynntir til sögunnar, og eru þá ytri breytingar upptaldar. Vinsældir CHR hafa að mestu leyti einskorðast við tvinnútgáfuna en 8 af hverjum 10 seldur CHR voru tvinnbílar. Því kemur ekki á óvart að kominn sé útgáfa með tveggja lítra vél sem eykur til muna afl bílsins á við fyrri útgáfur.

Tvinnútgáfan er vinsælust af öllum gerðum CHR og er 8 af hverjum 10 seldur þannig.

Þegar sest er inní bílinn sjást minni háttar breytingar á innréttingu sem eru allar af hinum góða. Betri efnisval er á sumum snertiflötum og kominn er nýtt og betra upplýsingarkerfi með átta tommu snertiskjá. Auðveldara er að nota nýja kerfið sem fljótlegt er að tengja við símann og það styður bæði Apple Carplay og Android Auto. Auk þess er komin velkomin viðbót sem er þráðlaus uppfærsla á leiðsögukerfi. Prófunarbíllinn var vel búinn HIC útgáfa og því voru leðursæti staðalbúnaður. Bíllinn er þokkalega rúmgóður frammí og útsýni ágætt miðað við bíl með afturhallandi þaki. Að vísu eru C-bitarnir aftast þykkir og búa til blint horn en stórir hliðarspeglar með blindhornsviðvörun gera sitt til að bjarga því. Aðeins þrengra er um aftursætisfarþega og það er ókostur að opnun á afturhurð, þar sem handfang er alltof hátt fyrir smáfólkið. Loks er lítið pláss í farangursrými og er það jafnvel aðeins minna í tveggja lítra bílnum og munar þar 19 lítrum.

Komið er betra efnisval í innréttingu og fullkominn upplýsingaskjár.

Stærsta breytingin á bílnum felst í vél og breytingum á undirvagni en hann er á GA-C undirvagninum sem er sami og Corolla er byggður á. Komin er ný tveggja lítra vél með CVT skiptingu sem er sama uppsetning og í RAV4 og Corolla. Vélin sjálf er 152 hestöfl og sameiginlegt afl vélar og rafmótors er 184 hestöfl. Það er aukning í afli um 50% á meðan að eyðsla eykst aðeins um 10% miðað við 1,8 lítra vélina. Það finnst vel í akstri hvað bíllinn er allur snarpari þrátt fyrir CVT skiptingu, sem er endurhönnuð og mun akstursvænni en áður. Segja má að bíllinn sé loksins kominn með vél í stíl við útlitið. Með tveggja lítra vélinni er bíllinn 8,2 sekúndur í hundraðið og hjálpar rafmótorinn við að ná betra upptaki. Auk þess liggur CHR ágætlega þótt hann sé enginn sportbíll og hann er líka hljóðlátari en áður.

Það munar hressilega um tveggja lítra vélina í CHR en hún er 182 hestöfl á móti 122 hestöflum í 1,8 lítra vélinni.

Toyota CHR hefur hækkað aðeins í verði með nýrri útfærslu, kostaði 4.630.000 kr áður en hækkar núna í 4.840.000 kr í grunnútfærslu sinni. Toyota CHR 2,0 kostar hins vegar frá 5.540.000 kr og í dýrustu útfærslu 5.990.000 kr svo auðvelt er að sjá að bestu kaupin eru í vel búinni tvinnútgáfu með tveggja lítra vél. En hverjir skyldu helstu keppinautar CHR vera hér á Íslandi? Sá helsti er eflaust nýr Nissan Juke sem væntanlegur er á allra næstu mánuðum. Sá er þó aðeins minni og CHR er í raun og veru nær Nissan Qashqai í stærðartölum. Verð á Nissan Juke er frá 3.890.000 kr fyrir en Qashqai kostar frá 4.050.000 kr og eru því báðir töluvert ódýrari. Á móti kemur meiri tækni í tvinnútfærslu CHR og góður staðalbúnaður.

Handfang fyrir afturhurð er eins ofarlega og hægt er sem er ekki gott fyrir smáfólkið.

Kostir: Búnaður, afl, hljóðlátur
Gallar: Handfang á afturhurð, farangursrými, verð

Tækniupplýsingar
Grunnverð:                 4.840.000 kr
Vél:                              1.987 rsm
Eyðsla bl ak:                5,2 l/100 km
Rafmótora:                  80kW
Hestöfl:                       184/6.000 sn
Tog:                             190 Nm/4.400-5.200 sn
Hámarkshraði:            180 km
0-100 km:                    8,2 sek
Eigin þyngd:                1.485 kg
L/B/H:                         4.390/1.795/1.555 mm
Hjólhaf:                       2.640 mm
Farangursrými:           358 l
CO2 útblástur:            118 g/km