Einn sögufrægasti bíll kvikmyndasögunnar fór undir hamarinn í gærkvöldi á Mecum uppboðinu í Kissimmee í Flórída. Bíllinn er af gerðinni Ford Mustang GT frá 1968 og Steve McQueen ók honum í myndinni Bullitt. Lokatalan var hvorki meira né minna en 3,4 milljónir dollara sem eru 420 milljónir íslenskra króna.

Bíllinn er í upprunalegu ástandi og aðeins ekinn 65.000 mílur frá upphafi.

Þetta er hæsta verð sem fengist hefur fyrir Mustang bíl á uppboði, og einnig hæsta verð sem slegið hefur verið á uppboðinu í Mecum. Ekki hefur verið gefið upp hver keypti bílinn en kaupandi þarf alls að greiða 3,74 milljónir dollara með gjöldum uppboðshússins. Fyrsta boð var aðeins 3.500 dollarar að ósk eiganda bílsins, en verðið fór á einu andartaki í milljón dollara og í tvær milljónir á innan við mínútu. Bíllinn er í upprunalegu ástandi sem eykur enn við verðmæti hans. Sá sem keypti bílinn eftir að kvikmyndin var sýnd í október 1968 var starfsmaður hjá Warner Brothers. Sá seldi lögreglumanni í New Jersey bílinn sem seldi hann Robert Kiernan 1974 fyrir sex þúsund dollara. Robert lét bílinn aldrei af hendi, ekki einu sinni þegar Steve McQueen sóttist eftir honum árið 1977. Sean Kiernan erfði bílinn eftir föður sinn og seldi bílinn á fyrrgreinda upphæð. Hann lét hafa eftir sér fyrir uppboðið að móðir hans hefði notað bílinn þar til að kúplingin bilaði árið 1980 en þá hafi honum verið lagt. Honum hefur því lítið sem ekkert verið ekið síðastliðin 40 ár og er Bullit bíllinn aðeins ekinn 65.000 mílur frá upphafi.