General Motors Co. Ætlar að endurvekja Hummer nafnið til að selja nokkrar gerðir rafjeppa segir í frétt hjá Automotive News. Ekki nóg með það heldur segir tveggja manna rómur að það verði kynnt á Super Bowl með auglýsingu með NBA stjörnunni Lebron James.

Fréttir voru af því á Bloomberg og Reuters í fyrra að GM væri á þeim buxunum að endurvekja Hummer nafnið með rafbílum. Hugmyndin er að smíða þá í Detroit-Hamtramck verksmiðjunni, og sagði The Wall Street Journar frá því á föstudaginn að GM hefði ákveðið að láta verða af þessu. Hummer merkið var lagt á hilluna árið 2010 eftir gjaldþrot GM, en bílarnir verða seldir undir GMC merkinu. Minnstu munaði að Hummer merkið yrði selt til Kína en á síðustu stundu var hætt við þær fyrirætlanir. GM áætlar samkvæmt fréttinni að smíða fjóra rafjeppa í verksmiðjunni árið 2023 og fjárfesta fyrir þrjá milljarða dollara í verkefninu. Líklegt er að framleiðsla hefjist strax á næsta ári.