Að keyra Mini er góð skemmtun og nú er komin rafmagnsútgáfa sem er með enn lægri þyngdarpunkti. Því var spennandi að sjá hvort það kæmi vel út í bílnum sem við höfðum til prófunar um helgina. Kannski muna einhverjir eftir tilraun Mini til að smíða rafmagnsbíl fyrir rúmum áratug. Sá bíll kom fram á sjónarsviðið árið 2008 en fór þó ekki í opinbera framleiðslu vegna ofvaxinnar rafhlöðu bílsins sem fyllti plássið fyrir aftan framsætin. Samt voru 500 eintök smíðuð og flutt til Bandaríkjanna þar sem bílarnir voru leigðir, en að lokum fluttir aftur til Þýskalands þar sem þeir voru teknir í sundur aftur. Nú er hann hins vegar loksins kominn á markað með sæti og pláss fyrir farangur en byggir þó að sumu leyti á því sem gert var fyrir áratug, enda var Mini E rixavaxið þróunarverkefni langt á undan mörgu því sem við sjáum í dag.

Hringlaga form eru allsráðandi innan í Mini-rafbílnum sem og neonblá díóðulýsing.
Myndir: Sigtryggur Ari

Auðvitað væri auðvelt að dæma þennan bíl hart ef út í það er farið fyrir margra hluta sakir. Hann er ekki með besta drægið enda hannaður sem borgarbíll. Hann er þriggja dyra svo að það að koma sér í aftursætin er aðeins fyrir liðugra fólk og alls ekki stórvaxna. Aðeins er gert ráð fyrir tveimur í aftursætum og ef þeir eru ekki fótastórir og háir í loftinu ætti að fara ágætlega um þá. Farangursrýmið rúmar bara nokkra innkaupapoka og fótarýmið aftur í er takmarkað. Maður fyrirgefur honum þó að mestu leyti þessa vankanta fyrir hversu bíllinn er skemmtilegur að öðru leyti. Hann er fallegur og vekur eftirtekt hvert sem hann fer, en best af öllu er að keyra hann. Það fer líka ágætlega um þá sem sitja í framsætum, enda eru þau með hliðarstuðningi, auk þess sem hægt er að lengja setuna. Ef ökumaður hefur yfir einhverju að kvarta væri það helst útsýni en breiðir A- og B-bitar hindra aðeins útsýni við akstur.

Eins og sjá má er farangursrými af skornum skammti enda aðeins 211 lítrar.

Rafhlaðan í Mini rafbílnum er undir aftursætinu en teygir sig líka fram á milli framsætanna svo að hún er eins og T í laginu. Hún er 32,6 kWh og dugir bílnum fyrir 235-270 km drægi. Hann er framhjóladrifinn og skilar BMWrafmótorinn 184 hestöflum og 270 newtonmetra togi sem kemur bílnum frá 0-100 km á 7,3 sekúndum. Rafmótorinn notar meira að segja sömu festingar og vélin myndi gera í öðrum Mini-bílum sem einfaldar framleiðsluferlið. Það sem gerir bílinn hins vegar skemmtilegri í akstri er hversu vel hann svarar öllum hreyfingum ökumanns. Hann er snöggur að taka við sér, stýrið er í næmara lagi og síðast en ekki síst, þyngdarpunkturinn er enn lægri en í öðrum Mini-bílum svo að hann er mjög skemmtilegur í hreyfingum og liggur sérlega vel. Þrátt fyrir það situr bíllinn 15 mm hærra en bensínbíllinn en það er gert til að skapa næga veghæð undir rafhlöðuna, og notar bíllinn því sömu fjöðrun og í Countryman. Þegar tekir er á honum er ekki laust við að hann yfirstýri örlítið sem er óvenjulegt fyrir framdrifsbíl.

Rafmótorinn er festur með sömu festingum og bensínvélin sem auðveldar framleiðsluferlið.

Bíllinn er með fjórar akstursstillingar, og það þarf engan að undra að sú skemmtilegasta er Sport, sem skilar sneggra upptaki. MID-stillingin er nokkurs konar Comfort-stilling en það má líka velja tvær Eco-stillingar. Eco Plus slekkur á hlutum eins og loftkælingu og miðstöð og minnkar afl bílsins til að kreista út sem flesta kílómetra. Tvær stillingar eru á endurnýtingu rafmagns og virkar það svo vel að mestallan tímann þarf ökumaður ekki að nota bremsuna. Hjálpar þar til hversu gjöfin er næm og auðvelt að stjórna bílnum einungis með henni. Við prófuðum bílinn í talsverðum kulda svo að ekki reyndist unnt að fullhlaða bílinn í heimahleðslu, þrátt fyrir að hann hafi verið í sambandi í þá 15 tíma sem eiga að duga til þess. Hann er þó gefinn upp fyrir 233 km drægi samkvæmt WLTP-staðlinum.

Mini-rafbíllinn er ágætlega snöggur af stað en hann fer í hundraðið á 7,3 sekúndum.

Kostir: Aksturseiginleikar, hönnun
Gallar: Staðalbúnaður, farangursrými

Mini Cooper SE Electric
Rafmótor: 184 hestöfl
Tog: 270 Nm
Rafhlaða: 32,6 kWh
Hleðslutími DC 80%: 45 mín
Heimahleðsla: 15 klst
Hröðun 0-100 km: 7,3 sek
Drægi: 233 km
L/B/H: 3.845/1.727/1.432 mm
Veghæð: 128 mm
Farangursrými: 211 l
Heildarþyngd: 1.365 mm