Sala nýrra fólksbíla á árinu 2019 var nokkuð minni en 2018 en í heildina seldust 11.728 nýir fólksbílar árið 2019 en 17.976 bílar árið 2018. Samdráttur milli ára var 34,8% en hafa ber í huga að 2018 var fyrir ofan meðallag söluára eftir aldamót. Vinsælasta einstaka vörumerkið var Toyota með 16,8% hlutfall, þar á eftir fylgdu Kia með 12,6% og Hyundai með 6,8%.

Efstu tíu bílarnir í heildarsölu og hlutfall sölu til einstaklinga og bílaleiga af þeim.

Þegar sölutölur ársins 2019 eru skoðaðar út frá því hver var vinsælasti bíllinn kemur ekki á óvart að Toyota-bíll tróni þar á toppnum en nýr RAV4 var vinsælastur með 696 seld eintök. Toyota RAV4 var líka ofarlega í valinu á bíl ársins í ár og vann flokk jepplinga. Í öðru sæti varð Dacia Duster með 552 bíla og MMC Outlander þriðji með 418 eintök. Toyota var með þrjá bíla í topp 10 en Land Cruiser varð í fjórða sæti með 384 bíla, en til að eiga fyrir einum slíkum þarf að punga út að lágmarki 8.480.000 krónum. Toyota Yaris var svo fimmti en af honum seldist 371 bíll. Dæmið breytist svo aðeins þegar skoðað er hvaða bílar eru keyptir af almenningi og hvaða bíla hinar fjölmörgu bílaleigur landsins kaupa, en þær keyptu 41,5% allra bíla á árinu 2019. Vinsælasti bílaleigubíllinn er Dacia Duster en hann kemst ekki einu sinni inn á listann yfir 10 vinsælustu bíla meðal almennings. Þar fer MMC Outlander fremstur í flokki með 397 bíla selda til einstaklinga. Toyota RAV4 er þar fast á hæla honum í öðru sæti með 347 eintök og Hyundai Kona jepplingurinn þriðji með 208 bíla. Toyota RAV4 er einnig í öðru sæti þegar kemur að bílaleigum með 346 bíla og Land Cruiser salan er greinilega mest bílaleigumegin en þær keyptu 234 slíka.