Bandaríska Umferðaröryggisstofnunin NHTSA sagði í dag að þeir myndu skoða beiðni þess efnis að rannsaka alvarlegan galla í Tesla bifreiðum, segir í frétt á Automotive News. Þar er NHTSA beðið formlega að rannsaka 500.000 Tesla bifreiðar vegna galla í inngjöf.

Gallinn nær til bíla frá 2012, en það eru 2012-2019 árgerðir Tesla Model S, 2016-2019 árgerðir Tesla Model X og síðustu tvær árgerðir Tesla Model 3. Beiðnin nefnir 127 kvartanir eiganda bílanna vegna 123 bifreiða, en um er að ræða 110 árekstra með 52 tilvikum þar sem slys urðu á fólki. Tesla lét ekkert hafa eftir sér í dag um beiðnina sem liggur fyrir hjá NHTSA. Flestar frásagnirnar segja frá óvæntri inngjöf þegar verið var að leggja bílunum, eða í umferð þegar verið var að nota aðstoðarbúnað við akstur. Í einni frásögn sagði eigandi Tesla Model S 85D frá því að þrátt fyrir að bíllinn hefði verið læstur og lokaður hefði hann ekið sjálfur í átt að götu þar sem að hann keyrði á kyrrstæðan bíl. Annar sagði frá atviki þar sem að bíllinn jók ferðina þegar verið var að leggja honum á skólalóð og að hann hefði ekið á stálkeðjugrindverk. Loks var þriðji Tesla ökumaðurinn sem sagði að bíllinn hefði aukið ferðina þegar verið var að leggja honum við bílskúr með þeim afleiðingum að hann ók í gegnum hurðina.