Á dögunum var Tesla bílaframleiðandinn í fréttum vegna rannsóknar NHTSA umferðaröryggismálastofnunar Bandaríkjanna á galla í Tesla bifreiðum, þar sem að 123 bílar áttu að hafa tekið af stað óvænt. Tesla hefur nú svarað þessum ásökunum og segja þær falskar og það sem meira er, að þær séu runnar undan rifjum skortsala. Skortsalar hafa tapað stórum upphæðum að undanförnu vegna velgengni Tesla og á fyrstu tveimur vikum 2020 töpuðu þeir 2,6 milljörðum dollara að sögn Ihor Dusaniwsky yfirmanni talnagreiningar hjá S3 Partners. Tesla segist hafa rannsakað hvert og eitt atvik og ekki fundið neitt að bílunum. Inngjafir Tesla bíla eru með tveimur skynjurum svo hægt er að sjá hvort að inngjöfin hafi fengið þrýsting frá fæti ökumanns eða ekki.