Lucid Air rafbíllinn var fyrst sýndur sem tilraunaútgáfa árið 2016 en verður nú frumsýndur sem framleiðslubíll á bílasýningunni í New York sem fram fer í apríl. Bílnum er ætlað að keppa við dýrari módel Tesla og BMW rafbíla en hann verður búinn 75 kWh Samsung rafhlöðu. Í afturhjóladrifinni útgáfu verður hann 395 hestöfl og með 390 km drægi, en þegar er hægt að panta þessa útgáfu í forpöntun. Fjórhjóladrifna útgáfan verður með tveimur mótorum og alls 1000 hestöfl og mun komast 650 km á hleðslunni, enda með 130 kWh rafhlöðu. Lucid Ari hefur náð 380 km hraða í prófunum sem gerir hann að hraðskreiðasta rafbíl í framleiðslu þegar hann kemur á markað. Lucid Air mun verða með sjálfkeyrandi búnaði, en Lucid er um þessar mundir að prófa 80 bíla í Newark í Kaliforníu.