Volkswagen mun frumsýna nýjar útgáfur áttundu kynslóðar Golf á bílasýningunni í Genf, nánar tiltekið öflugar útgáfur Golf R og GTI. Nýlega var skjámynd af hestaflatölum þessara bíla frá upplýsingadeild VW lekið á netið. Einnig náðist þessi mynd af afturenda GTI á dögunum og birtist á Instagram.

Myndin sýnir innanhússkjal frá Volkswagen og sýnir hestaflatölur áttundu kynslóðar Golf.

Í Golf R erum við að tala um öflugasta Golf sem sést hefur, en samkvæmt innanhúss upplýsingum sem lekið var frá Volkswagen mun sá bíll verða 328 hestöfl sem er 32 hestöflum meira en bíllinn sem hann leysir af hólmi. GTE útgáfan verður 242 hestöfl samkvæmt sömu upplýsingum og GTI í TCR útgáfu verður 296 hestöfl. Búast má við þessum útgáfum bílanna í fyrsta lagi í haust á Íslandi.