Nýr Toyota Yaris kemur á markað á þessu ári og í kjölfarið mun koma svokölluð GR útgáfa. GR Yaris er hannaður í sameiningu af Toyota Gazoo Racing og Tommi Makinen Racing. Meðal þess sem er sérstakt fyrir þennan bíl er sérhönnuð 1,6 lítra, þriggja strokka vél með forþjöppu sem skilar 261 hestafli. Bíllinn verður snöggur í hundraðið eða 5,5 sekúndur og verður hámarkshraði takmarkaður við 230 km á klst. Einnig er hann á sérhannaðri grind með tveggja dyra byggingarlagi ásamt sérhannaðri fjörðun. Gírkassinn er beinskiptur sex gíra kassi og hann verður að sjálfsögðu búinn fjórhjóladrifi.

Toyota GR Yaris er í raun og veru fyrsta tilraun framleiðandans í mörg ár til að búa til rallbíl sem höfðar til nýrrar kynslóðar. Sumir muna eftir bílum eins og Celica GT-Four sem kepptu við Subaru Impreza og Mitsubishi Lancer Evolution. Framleiðendur höfðu ekki undan að framleiða götuútgáfur sem byggðu á þessum keppnisbílum. Sérhanna þurfti undirvagn og yfirbyggingu Yaris sem keppnisbíls og þess vegna þótti sjálfsagt að koma með framleiðsluútgáfu byggða á því. Þótt Toyota hafi ekkert gefið uppi um verð GR Yaris er líklegt að þessi bíll bjóði uppá „ódýr hestöfl“ eins og GTI bílar níunda áratugsins gerðu. Von er á bílnum í sölu í Evrópu í lok þessa árs.