General Motors hélt ráðstefnu á miðvikudaginn fyrir væntanlega fjárfesta og meðal þess sem sagt var frá þar var stefna GM varðandi rafvæðingu bílaflota þeirra. Meðal umfjöllunarefna var nýi Hummer rafjeppinn sem væntanlegur er 2021.

Meðal þess sem sagt hefur verið um bílinn er að hann muni hafa stjarnfræðilegar tölur þegar kemur að togi, eða 15.590 Newtonmetra. Það mun vera útfærsla með þremur rafmótorum sem skilar 1.000 hestöflum. Einnig verða útfærslur með einum eða tveimur rafmótorum í boði. Ekki hefur verið gefið upp hvernig þessir þrír mótorar verða í bílnum en einn möguleiki er að einn mótor sé á öxli en tveir í hjólunum sjálfum, sem myndi þýða bæði fjórhjóladrif og fleiri akstursmöguleika, eins og að geta snúið hjólum allt að 90 gráðum. Rafmótorar í hjólunum auka það sem kallað er ófjaðrandi þyngd sem hefur áhrif á aksturseiginleika. Tesla Cybertruck verður með allt að þremur mótorum en Hummer rafjeppinn verður í beinni samkeppni við hann.