Árið 2017 sýndi Toyota tilraunabíl sem kallaður var TJ Cruiser. Samkvæmt bílablaðinu Best Car í Japan er framleiðsluútgáfa á leiðinni sem kynnt verður í maí. Sama blað hélt því reyndar fram í fyrra að það myndi gerast síðastliðinn október sem gekk ekki eftir, en blaðið er samt oft þekkt fyrir að koma fyrst með fréttir af japönskum bílum.

Það sem gerir þetta líklegra en áður er að Toyota vill eflaust finna hentugan keppinaut við Honda Passport og þar gæti TJ Cruiser komið sterkur inn. TJ Cruiser er byggður á TNGA undirvagninum sem er einnig undir RAV4 og það þýðir nokkra möguleika þegar kemur að vélbúnaði. Hann gæti verið búinn 1,8 eða 2,5 lítra bensínvélum með tvinnbúnaði og jafnvel þeirri stærri með tengiltvinnútfærslu sem skilar 300 hestöflum. Tilraunaútgáfan var með sniðugum lausnum í farþegarými eins og sætum sem mátti brjóta saman, farangursrými sem mátti hólfa að vild og rennihurðum svo eitthvað sé nefnt.