Nokkrar njósnamyndir hafa verið að birtast af Hyundai i20 að undanförnu og kannski þess vegna birti Hyundai hönnunarmynd af bílnum um leið og staðfest var að hann yrði frumsýndur á bílasýningunni í Genf. Þótt myndin sé ýkt sýnir hún að bíllinn er hvassari í hönnun og framendinn líkari i10. Framljósin minna þó meira á i30 sem fær andlitslyftingu í Genf. Annars er ekki mikið vitað um nýja Hyundai bílinn en forvitnilegt verður að sjá hvort einhver rafdrifin útgáfa leynist á sýningarsvæði Hyundai í Genf. Eins er óljóst hvort að þriggja dyra Coupé útgáfan haldi áfram. Flestir framleiðendur hafa hætt við heitari þriggja dyra útgáfur nema aðal samkeppnisaðilinn Toyota, sem nýlega kynnti GR Yaris.