Land Rover Discovery Sport kom fyrst til sögunnar árið 2015 og var kynntur fyrir heimspressunni hér á Íslandi. Þar fengu blaðamenn að prófa bílinn við ýmsar aðstæður, meðal annars uppi á hálendinu. Nú tæpum fimm árum seinna er komið að því að gefa bílnum smá andlitslyftingu og þá aðallega innandyra en einnig á ljósabúnaði. Um 60% af bílnum hafa verið endurhönnuð og hann er nú kominn í tvinnútgáfu líka sem við höfðum til prófunar. Þótt reynsluaksturinn hafi ekki verið um hálendið að þessu sinni var bíllinn þó prófaður í torfærum líka.

Komið er nýtt mælaborð með tveimur stórum upplýsingaskjáum og stílhreinna útlit í innréttingu, sem er með vel útfærðum miðjustokki. MYNDIR/TRYGGVI ÞORMÓÐSSON

Að innan er Discovery Sport nánast eins og aðrir Land Rover og Range Rover jeppar. Hann er með einfaldari útgáfu af InControl upplýsingakerfi Land Rover. Stór upplýsingaskjár er í mælaborði og snertiskjár fyrir miðju en hann er ekki með skjánum fyrir miðstöðina líka. Það er smá hik skjánum þegar nota á flettimöguleikann en annars virkar hann vel. Þess í stað er hægt að skipta á milli stillinga á miðstöð, sætishita eða aksturstillingum með sama skruntakkanum. Komin er aftursætaröð sem skiptist 40:20:40 sem að með þriðju sætaröðinni er hægt að stilla á 24 mismunandi vegu. Fyrir fjölskyldufólk á faraldsfæti með alls konar útivistarbúnað er það eflaust kostur. Óhætt er að segja að það fer vel um alla fimm farþegana í Discovery Sport því að sæti eru í stærri kantinum og fótarými og höfuðrými gott í hvívetna. Plássið í farangursrými nýtist vel og
það er þægilegt að hafa niðurfellingu á aftursætaröðinni við afturhlerann. Þriðja sætaröðin, sé hún fyrir hendi er hins vegar aðeins fyrir þá fótsmáu því að fótarými er mjög takmarkað þannig.

Fjögurra strokka 150 hestafla vélin er nú komin í mildri tvinnútfærslu. Með 48 volta mildri tvinnútgáfu þýðir það einfaldlega að startaranum er umbreytt í stærri rafmótor sem er tengdur vélinni með belti. Rafmótorinn getur hlaðið rafmagn við hemlun sem fer í rafhlöðu sem komið er fyrir undir aftursætum. Á undir 17 km hraða slekkur vélin á sér ef ökumaður er kominn með fótinn á bremsuna. Notar bíllinn þá rafmagnið á rafhlöðunni og aðstoðar við upptakið en rafmagnið gefur allt að 140 Newtonmetra aukið tog. Þegar verið var að hægja á bílnum stutta stund, eins og í vinstri beygju á ljósum fannst örlítið hik í upptakinu en að öðru leyti virkaði búnaðurinn vel og hljóðlaust. Ný níu þrepa sjálfskipting frá ZF tryggir svo silkimjúkan
akstur enn frekar. Yfirbyggingin er nú 13% stífari en það finnst ekkert
endilega í akstrinum. Fjöðrunin er mýkri en í flestum jepplingum í sömu stærð og hann leggst fyrir vikið aðeins í beygjum en á móti kemur að hún er einstaklega þægileg á grófari vegum og hentar því bíllinn vel íslenskum aðstæðum utan borgarmarkanna.

Með andlitslyftingunni kemur Discovery Sport með smekklegum díóðuljósum að framan og fjöðrunargeta í torfærum er áfram aðalsmerki bílsins.

Helstu keppinautar eru þónokkrir og fer það eftir því hvort maður ber saman lúxus eða þá staðreynd að hann er með þriðju sætaröðina. Peugeot 5008 og Skoda Kodiak eru vel búnir bílar sem bjóða upp á möguleika á sjö sæta útfærslu fyrir talsvert minna verð, Peugeot 5008 frá 4.930.000 kr og Kodiak frá 6.555.000 kr. Það er frekar að Discovery Sport keppi við bíla eins og BMW X3, Audi Q5 og nýjan Mercedes-Benz GLC sem kemur einnig með sjö sætum. BMW X3 kostar frá 7.190.000 kr, en Q5 frá 9.990.000 kr. Ekki er komið verð á Mercedes GLC þegar þetta er ritað. Grunnverð tvinnútgáfu Discovery Sport er hins vegar 6.890.000 kr svo að ljóst er að hann stendur sig ágætlega í samkeppninni verðlega séð, enda munar um minna kolefnaspor tvinnútgáfunnar.