Nikola rafbílaframleiðandinn ætlar að skella sér í samkeppnina um rafdrifna pallbíla en Badger pallbíllinn þeirra verður frumsýndur í haust. Bíllinn er bæði búinn rafhlöðu og vetnisknúnum efnarafal sem gefur honum drægi sem ekki hefur sést áður eða 1.000 km.

Hægt verður að velja um hvort bíllinn sé keyptur með efnarafalnum eða ekki en án hans er drægið samt 500 km. Efnarafallinn er 120 kW en rafhlaðan er 160 kWh en hann verður búinn þremur rafmótorum sem skila 906 hestöflum og 1.330 Newtonmetra togi. Það mun duga honum til að fara í hundraðið á aðeins 2,9 sekúndum. Badger getur notað helminginn af aflinu beint í drátt á kerru, en hann getur líka tekið af stað með sameiginlegan lestarþunga uppá 8.160 kg í allt að 30% halla. Hann verður líka með 15 kW tengi fyrir raftæki eins og loftpressur en 15 kW geta séð heilu byggingarsvæði fyrir raforku í hálfan dag ef svo ber undir. Nikola er staðsett í Phoenix Arizona og hefur verið leiðandi í framleiðslu rafmótora og vetnisrafala, auk þróunar á rafdrifnum flutningabílum.