Volkswagen mun kynna nýjan Transporter seinna á árinu að sögn veftímaritsins AutoExpress, en það er aðeins ári eftir að ný útgáfa sjöttu kynslóðar hans var kynnt. Nýlega náðust njósnamyndir af Caravelle bílnum við vetrarprófanir sem sýna að sjöunda kynslóðin er mikið breytt fá fyrri gerðum. Búast má við nýjum vélum ásamt nýrri tækni beint frá áttundu kynslóð Golf.

Bíllinn er líkari fólksbíl en áður, ekki bara vegna útlitsins sem líkist mjög nýjum Golf, heldur einnig hvernig hann er smíðaður. Hliðarhurðirnar ná ekki lengur inná hjólabogana og ökumaður situr aftar en áður sem bendir til þess að um alveg nýjan undirvagn sé að ræða. Orðrómur er um að hann muni nota MQB undirvagninn sem þýðir að hann geti notað tveggja lítra dísilvélarnar með forþjöppu eins og eru í Tiguan og Octavia. Líklegt er að einnig verði í boði rafútgáfa eins og í sjöttu kynslóðinni.