Einn vinsælasti pallbíll á Íslandi er án efa Mitsubishi L-200 og þótt víðar væri leitað. Mitsubishi hefur þegar selt 4,7 milljón eintök af L-200 í heiminum síðan framleiðsla hófst árið 1978. Með þeim 2400 breytingum sem átt hafa sér stað á þessari sjöttu kynslóð er reynt að gera bílinn kraftalegri þótt að hann byggi í raun og veru mikið á fyrri kynslóð. Óhætt er þó að segja að nýja útlitsbreytingin er vel heppnuð og bíllinn allur verklegri og sportlegri að sjá. Húddið er töluvert hærra og ljósin hvassari en þau eru 100 mm hærri en áður.

Framendinn er talsvert mikið breyttur með húddi sem er 40 mm hærra og ljósin hafa verið færð upp um 100 mm. MYNDIR/TRYGGVI ÞORMÓÐSSON

Það er þægilegt að ganga um bílinn og gott að setjast uppí hann miðað við pallbíl í þessum stærðarflokki. Þótt L-200 sé með minni pallbílum fær maður það þó ekki á tilfinninguna undir stýri á þessum bíl. Innréttingin minnir meira á fólksbíl og er í stíl við nýjustu bíla Mitsubishi en er samt ekki mikið breytt frá fyrri kynslóð. Kominn er meiri búnaður en áður og þá sérstaklega í dýrari útgáfum bílsins. Stýrið er með flipum fyrir sjálfskiptingu en þeir fylgja samt ekki stýrinu sem er dálítið óþægilegt. Sætin eru stærri og þægilegri og það er nóg af góðum hólfum. Það eru líka komnir upplýsingaskjáir og díóðulýsing í káetu svo allt umhverfið er nýtískulegra þótt það sé kunnuglegt. Það vekur athygli að upplýsingaskjár er ekki búinn leiðsögutæki og öll uppsetning mætti vera einfaldari. Sem dæmi ef velja á að hringja í síðasta númer, þarf fyrst að fara í síma og síðan velja síðustu tengiliði, svo nafnið og síðan að velja hringitakkann. Loks þarf að svara spurningu um hvort maður hafi örugglega valið rétta aðilann, en þetta er alltof flókin leið að jafn einfaldri aðgerð. Annars er lítið hljóð frá vélinni í farþegarými nema á snúningi og greinilegt að meira hefur verið lagt í hljóðeinangrun.

Mælaborðið er kunnuglegt þótt kominn sé betri upplýsingaskjár og meiri búnaður.

Þennan nýja L-200 er enn þá skemmtilegra að keyra en fyrri kynslóð og sérstaklega er eftirtektarvert að finna hversu öruggur hann er í stýri. Búið er að endurhanna fjöðrun til að gefa mýkri og hljóðlátari akstur, en L200 er á blaðfjöðrum að aftan en með sjálfstæða fjöðrun að framan. Ekki skemmir fyrir að komin er ný sex þrepa sjálfskipting sem ræður enn betur við allan þann akstur sem slíkum bíl eins og þessum er boðið upp á. Loks er driflína Mitsubishi pallbílsins sér á parti. Þess vegna skilur maður ekki hvað hönnuðir Mitsubishi voru eiginlega að hugsa þegar þeir ákváðu að minnka afl bílsins verulega, en nýja vélin er aðeins 150 hestöfl sem er talsvert undir því besta sem aðrir bjóða upp á. Jú, nýja vélin er öll úr áli, nær 400 Newtonmetra hámarkstogi 500 snúningum neðar en gamla vélin og stenst nýjustu mengunarstaðlana en það er ekki nóg í flokki bíla þar sem menn horfa á afköst vélanna fyrst og fremst. Til að bæta gráu ofan á svart er hik á lágsnúningi og aflið byrjar ekki að skila sér að ráði fyrr en nálægt 2.000 snúningum. Það sem bjargar bílnum er eins og áður var sagt góð driflína sérstaklega þegar kemur að drætti. Hægt er að skipta úr afturhjóladrifi í fjórhjóladrif á ferð, tölva sér um aksturstillingar ef stillt er á akstur í möl, leðju/snjó, sandi eða steinum. L-200 er líka með brekkuviðnám og læsingu á mismunadrifi að aftan.

Afl vélarinnar er minna en áður og skilar hún nú 150 hestöflum og hefur 400 Newtonmetra hámarkstog sem kemur fyrr inn á snúningssviðinu.

Eins og áður sagði er mikil samkeppni á pallbílamarkaði og þessi flokkur orðinn mjög fjölbreyttur. Helstu samkeppnisaðilar hans hérlendis eru Toyota Hilux, Nissan Navara og Ford Ranger. Mitsubishi L-200 er 150 hestöfl og grunnverð hans er 5.490.000 kr. Hestaflatala Toyota Hilux er sú sama en hann kostar frá 6.270.000 kr. Nissan er 160 hestöfl og kostar frá 5.790.000 kr og loks er Ford Ranger frá 170 hestöflum og kostar frá 6.490.000 kr. Hann er líka hægt að fá með öflugri 213 hestafla vél en þá kostar hann frá 7.690.000 kr.

Pallurinn ber 1.080 kíló og er með sex botnfestingum en hægt er að fá lok yfir pallinn sem aukabúnað. Auk þess er hægt að fá hann með klæðningu.