Í síðustu viku rúllaði síðasti Chevrolet Impala bíllinn af færibandi verksmiðju General Motors í Hamtramck í Michican-ríki. Breyta á verksmiðjunni fyrir samsetningu raf bíla og því þótti bílablaðamanni Fréttablaðsins við hæfi að minnast bílsins með fáeinum orðum.

Impala-nafnið kom til árið 1959 þegar það klauf sig frá Bel Air með tveggja dyra kagga. Fyrsta Impalan þótti mjög róttæk í hönnun með langri yfirbyggingu, vængjum sem minntu á Batman-bílinn og kattaraugum í afturljósum. Framendinn var hefðbundnari með sveigðum loftinntökum og bíllinn var fljótt boðinn sem fjögurra dyra hardtop og sedan. Vélbúnaðurinn var heldur ekki af verri endanum og var átta strokka bíllinn með 348 kúbiktommu vél sem skilaði 320 hestöflum gegnum Six-pack blöndung og Turboglide-skiptingu. Bíllinn varð fljótt vinsæll og er það í sjálfu sér enn og fer tveggja dyra bíll frá 1959 í góðu ástandi varla undir 100.000 dollurum í dag.