BMW hefur kynnt til sögunnar tilraunabílinn i4 sem settur er til höfuðs Tesla Model 3. Bíllinn er í raun og veru forkynning á sama bíl sem kemur sem framleiðslubíll á næsta ári.

Undirvagn bílsins er sá sami og í 4-línu Gran Coupe og margt í línum þessa bíls minnir á hann. Þó er búið að breyta nýrnagrillinu að framan og stækka það mikið, komin eru ný og þynnri aðalljós, endurhannaður afturendi og bláar línur sem eiga að undirstrika það að bíllinn sé rafdrfinn. Margt er gert til að lækka vindmótsstuðulinn eins og með lokuðum álfelgum og í stað útblásturskerfis að aftan er kominn vígalegur loftdreifari. Innandyra er bogadregið mælaborð með upplýsingaskjám sem BMW hefur staðfest að verði í iNEXT jepplingnum og i4 líka. Hægt verður að stjórna flest öllu frá skjánum eins og í Tesla Model 3. Tilraunabíllinn er með 523 hestafla rafmótor sem á að koma bílnum í hundraðið á fjórum sekúndum. Rafhlaðan er 80 kWh og drægi hans mun vera 600 km. Hvort að þetta verði endanlegar tölur hans þegar kemur í framleiðslu er þó óljóst enn en drægi Tesla Model 3 er allt að 600 km svo að það er ekki ólíkt með það í huga.