Samkeppni á markaði stórra lúxusjeppa hefur farið vaxandi víða en nýlega setti MercedesBenz nýjan GLS á markað. Hérlendis á hann fáa keppinauta nema kannski BMW X7 og Range Rover en í Bandaríkjunum eru þeir f leiri, eins og nýr Lincoln Navigator og Cadillac Escalade sem leiðir söluna þar. Kannski ekki skrýtið að þessi bíll sé framleiddur í Alabama í Bandaríkjunum þegar horft er til þessa, og þar hafa líka f lestir selst af þeirri hálfu milljón sem komið hafa á götuna síðan 2006.

Tvöfaldir skjár MBUX-kerfisins eru allsráðandi í mælaborði bílsins og 64 lita LED-lýsing er staðalbúnaður.

Þótt ekki þurfi að fara mörgum orðum um M-BUX kerfið og tæknilega fullkomnun þess er samt ekki laust við að notandanum finnist eins og hann þyrfti á námskeiði að halda til að byrja með, svo margir eru möguleikar kerfisins og leiðirnar að þeim. Nota má raddstýringu, snertivæna stjórnhnappa úr stýri, fingraborð í miðjustokki eða hefðbundna hnappa í sumum tilvikum. Þeir sem eru alltaf með bílinn sinn á þvottastöðvum munu elska akstursstillingu sem heitir þvottastöðvarstillingin. Þá hækkar bíllinn fjöðrunina, fellir hliðarspeglana inn, slekkur á nálægðarskynjurum og sjálfvirku rúðuþurrkunum, og athugar hvort allar rúður og topplúga séu lokuð. Vert er að minnast á það að glerþakið er það stærsta sem er í boði á framleiðslubíl í dag.

Þó að aftasta sætaröðin sé uppi eru 680 lítrar fyrir farangur. Einfalt er að fella niður sæti með rafbúnaði.

Fótapláss í nýjum GLS er átta sentimetrum meira en áður og það finnst vel að plássið er gott þótt hér sé á ferðinni bíll með þrjár sætaraðir. Þeir sem sitja aftur í kunna að meta þann möguleika að geta stillt sjálfir sætin með rafmagni líkt og farþegar í framsætum gera. Það er yfirdrifið af öllu í GLS og þá ekki bara plássi enda er bíllinn risastór. Ellefu USB-innstungur ættu að duga fyrir öll þau tæki sem gætu verið í sambandi í bíl og meira til. Það er meira að segja gott pláss fyrir farangur þótt allar sætaraðir séu í notkun. Það er algjör snilld að nota rafmagnsfellinguna á sætaröðunum aftur í á GLS. Með einum takka má annaðhvort fella niður öftustu sætaröðina eða báðar aftari. Það skiptir heldur ekki máli hvort eitthvert sæti í miðjusætaröðinni er of aftarlega því að rafmagnsbúnaðurinn færir það einfaldlega fram áður en öftustu sætin eru felld niður svo að notandinn þarf ekki að hlaupa á milli hurða til að sjá um það handvirkt. Auk þess er jafn einfalt að komast í öftustu sætaröðina frá afturhurðunum því að með einum takka sér rafmagnið um að færa sætið fram, og færir þá líka framsætið ef það er í veginum. Plássið í öftustu sætaröðinni getur dugað fullorðnum ágætlega sem kemur þægilega á óvart, og það fór ágætlega um undirritaðan sem er 183 cm á hæð. Höfuðrými er meira segja viðunandi og það eina sem er óþægilegt er að koma fyrir höfuðpúðunum sem eru í neðstu stillingu þegar sest er inn, til að hefta ekki útsýni.

Sex strokka V6-dísilvélin í 350-útgáfunni er sú aflminnsta í boði en dugar þessum þunga bíl samt vel.

En hvernig er þá að keyra þennan tveggja og hálfs tonna bíl? Nýr GLS kemur á nýjum undirvagni og eru allar útgáfur með loftpúðafjöðrun. Þrátt fyrir mikla þyngd leggst bíllinn vel í beygjur og virkar rásfastur. Enn skemmtilegra hefði verið að prófa bílinn með Active Body Control kerfinu sem les veginn fram undan og stillir fjöðrun og fleira samkvæmt því. Stærðin virðist ekki há honum sérstaklega í akstri en bíllinn er 5,2 metrar að lengd og tveir metrar á breidd. Bíllinn er mjög hljóðlátur og meira að segja vélin lætur ekki heyra mikið í sér. Það eina sem maður tekur eftir í hljóði er smá vindhljóð frá glerþakinu. Við prófuðum bílinn í 350d-útfærslunni sem skilar 286 hestöflum og þau virðast duga bílnum vel. Það er samt aflminnsta vélin sem í boði er.

Mercedes-Benz GLS er hinn besti ferðabíll enda plássið yfirdrifið og þægindin í fyrirrúmi.

Eins og áður sagði er bíllinn í samkeppni við BMW X7 og Range Rover hérlendis fyrst og fremst. BWM X7 kostar frá 17.390.000 kr. sem er nákvæmlega sama grunnverð og í stórum Range Rover. Grunnverð GLS er hins vegar 15.590.000 kr. sem er talsvert lægra og í raun og veru ertu kominn í svipað verð og samkeppni þegar Power-útfærslan er valin. Fyrir 17.690.000 kr. er bíllinn kominn með Burmester-hljómkerfi ásamt Exclusive-leðurinnréttingu og akstursaðstoðarpakka á næstum sama verði. Það kann að hljóma kjánalega að bíll sem kostar rúmar 15 milljónir sé á góðu verði en það er nú samt raunin.