Tesla Model 3 hefur mikið verið til umfjöllunar í bílapressunni að undanförnu og mest af hinu góða. Bíllinn hefur verið valinn Bíll ársins 2020 hjá Parkers og Auto Express tímaritunum, Bíll ársins 2020 í Sviss og Danmörku, Gullna Stýrið 2019, Besti rafbíllinn hjá Edmunds og What Car? og svo má lengi telja áfram. Sölutölur segja sömu sögu þvi að Tesla Model 3 var í þriðja sæti yfir mest seldu bíla í Evrópu í desember og mest seldi bíllinn í Noregi og Hollandi. Þegar þetta er skrifað eru Tesla Model 3 í löngum röðum niður á hafnarbakka Sundahafnar og eins víst að bíllinn verði með þeim best seldu á Íslandi þetta árið. Við gátum ekki látið hjá líða að prófa þennan bíl og eftir talsverða eftirgangsmuni við söluaðilann á Íslandi í vetur vorum við komnir með eitt stykki Long Range með fjórhjóladrifi í hendurnar fyrri hluta febrúarmánaðar.

Hurðarhandföng eru innfelld líkt og í Tesla Model S en ekki rafdrifin. Lenti greinarhöfundur einu sinni í því að þau frusu föst í átta gráðu gaddi. MYNDIR/TRYGGVI ÞORMÓÐSSON

Það fyrsta sem maður reyndi á bílnum var reyndar það sem maður kunni síst við, en það voru hurðarhandföngin. Þau falla inn í hurðina að utanverðu en eru ekki með rafbúnaði líkt og í Model S. Þess í stað þarf að ýta með þumli og fá arminn út og toga svo í hann. Þetta þýðir að beita þarf hendinni meira til að opna hurðina en með hefðbundnum hætti. Auk þess náðu handföngin að frjósa föst í átta gráðu gaddi einn prófunardaginn. Þegar inn er komið tekur afskaplega smekkleg innrétting við manni og greinilegt að hönnunin er komin einu skrefi lengra en í Model S. Sætin frammí eru í minni kantinum og mætti seta þeirra vera aðeins lengri þegar haft er í huga pláss annars staðar í bílnum. Það er ekkert fyrir framan mann annað en stýrið og í því eru tveir rofar sem nota má á ýmsa vegu, meðal annars til að stilla aðdrátt og hæð.

Það er einfalt og þægilegt að nota skjáinn til að stýra öllu og duga 2-3 snertingar fyrir hverja aðgerð.

Fyrir miðju er risastór upplýsingaskjár sem er láréttur. Á honum má gera nánast allt sem hefur með stillingar að gera auk þess að nota afþreyingarkerfi bílsins. Fyrir einhvern sem unnið hefur við snertiskjárlausnir er aðdáunarvert hversu vel hönnuðum Tesla tekst upp með skjáinn því að aðeins eru 2-3 snertingar að hverri aðgerð. Eitthvað sem aðrir framleiðendur mættu taka sér til fyrirmyndar. Það eina sem að hefði mátt gera betur er stillingin á sjálfvirku rúðuþurrkunum en ekki er hægt að stilla næmnina á þeim. Þótt bíllinn hefði ekki verið með fullvirkum Autopilot var samt ansi mikið hægt að gera eins og að stilla kerfið þannig að bíllinn tók sjálfur af stað aftur. Á skjánum sjást líka myndir af umferðinni í kring og þar sem útsýni aftur er takmarkað líkt og í mörgum öðrum bílum var þægilegt að nota skjáinn til að fylgjast með blindu svæðunum.

Fjórhjóladrifsbíllinn er 5,4 sekúndur í hundraðið og fullkomin spólvörnin gerir upptakið í snjónum gott líka.

En hvað með aksturinn sjálfan? Þótt hér sé um fjölskyldubíl að ræða er margt sem bendir til þess að verið sé að horfa til sportlegra eiginleika. Fyrir það fyrsta er hægt að snúa stýrinu tvo hringi en flestir bílar hafa hringina nær þremur. Fyrir vikið er hann kvikur og skemmtilegur í stýri sem fer öðrum eiginleikum bílsins vel. Varla þarf að taka fram að bíllinn er kraftmikill, líka í Long Range útgáfunni en þannig er hann 4,6 sekúndur í hundraðið. Þeir sem velja Performance útgáfuna mega búast við svipuðu upptaki og í Porsche 911. Bíllinn svarar því einstaklega vel og hann er aðdáunarvert að finna hversu vel hann ræður við hálku. Fyrsti prófunardagurinn var laus við hálku og þá naut maður þess að finna hversu vel bíllinn réði við beygjurnar enda þyngdarpunkturinn mjög neðarlega.

Með framsæti í kjörstöðu er ennþá pláss fyrir fullorðinn í aftursæti.

Greinilegt er að það er kominn titringur í samkeppnisaðila með tilkomu Tesla Model 3 á íslenskan markað. Bílabúð Benna býður 600.000 kr lækkun á Opel Ampera sem nú er boðinn frá 4.590.000 kr. Það verður erfitt að bera hann saman í verði við aðra rafbíla sem nú eru í boði hérlendis því að enginn þeirra er beinn samkeppnisaðili eins og er. Það er frekar að maður reyni að bera saman bíla sem eru í svipaðri stærð og þá skoða út frá drægi þeirra. Opel Ampera er með um það bil 520 km og Kia e-Niro er með 455 km drægi, en hann kostar frá 5.490.777 kr með stærri rafhlöðunni. Talsvert minna drægi er í Hyundai Ionic eða 311 km en hann kostar frá 4.790.000 kr. Næsti samkeppnisaðili sem væntanlegur er á markað er VW ID.3 sem kemur með sumrinu. Verð á Tesla Model 3 byrjar í 5.122.735 með virðisaukaskatti en prófunarbíllinn sem var Long Range útgáfa kostar frá 6.152.191 kr. Einnig er hægt að fá bílinn í Performance útgáfu sem kostar 7.144.191 kr.

Farangursrými eru alls 425 lítrar með 340 lítra í skottinu og eru 85 lítrar frammi í bílnum undir húddinu.

Í starfi undirritaðs sem bílablaðamaður til margra ára hefur maður prófað marga rafmagnsbíla á undanförnum árum. Það er því ekki laust við að maður hafi hugsað hvort að ekki sé kominn tími á slíkan bíl, en alltaf fundið eitthvað til að afsaka það að stíga skrefið til fulls. Hann er of dýr, hann er of flókinn, eða drægið er of lítið, eða hann hentar ekki þar sem hann getur ekki dregið og svo koll af kolli. Þegar búið er að reynsluaka Tesla Model 3 eina helgi verður manni loksins ljóst að það er engin afsökun til lengur. Hver getur verið á móti slíkum bíl sem að hefur jafnmikið drægi og bíll með fullan bensíntank og sama upptak og Porsche 911? Þessi bíll er einfaldlega bíllinn sem breytir leikreglunum og hætt er við að aðrir framleiðendur sjá sig knúna til að fylgja í kjölfarið. Það verður því gaman að fylgjast með framvindunni á næstu misserum og sjá hvað samkeppnin mun bjóða uppá, því eitt er víst að hún mun þurfa að herða sig.

Kostir: Drægi, aksturseiginleikar, upplýsingaskjár
Gallar: Hurðarhandföng, Engin næmni á sjálfvirkum rúðuþurrkum

Tesla Model 3 Long Range AWD
Grunnverð:                 5.122.735 kr
Drægi WLTP:               560 km
Rafhlaða:                     75 kWh
Þyngd:                         1.847 kg
Hestöfl:                       450
Tog:                             639 Newtonmetrar
Upptak 0-100 km:       4,6 sek
Hámarkshraði:            261 km
Farangursrými:           542 lítrar