Koenigsegg kynnti á þriðjudaginn tvo nýja ofurbíla, hinn fjögurra sæta Gemera sem er bíll framleiðandans með aftursæti og svo hraðskreiðasta bíl sem að Koenigsegg hefur framleitt, sem er Jesko Absolut. „Jesko Absolut er jarðbundin eldflaug með það fyrir augum að ná áður óþekktum hraða á mettíma“ segir forstjóri Koenigsegg, Christian von Koenigsegg. Ekkert er annars gefið upp um hámarkshraða hans eða upptak í fréttatilkynningu.

Jesko Absolut er götuútgáfa Jesko sem var kynntur sem brautarbíll í fyrra og að sögn Koenigsegg mun framleiðandinn ekki reyna að framleiða hraðskreiðari götubíl. Absolut er með mjög lágan vindmótsstuðul eða 0,278 Cd auk loftflæðihönnunar sem er gerð til að halda bílnum við veginn. Ekki veitir af með 1.600 hestafla V8 vél með tveimur forjöppum afturí. Vélin getur gengið á E85 eldsneyti og snúist allt að 8500 sn/mín. Gírkassinn er níu þrepa LST sem getur skipt á ljóshraða úr hvaða gír sem er í hvaða gír sem er. Með fullan tank af eldsneyti og tvo í bílnum eru aflhlutföll hans 1:1 sem þýðir að það er eitt hestafl á hvert kíló.

Jesko Absolut er eins og eldflaug með sín 1.600 hestöfl frá etanóldrifinni V8-vélinni. Hann er einnig með mjög lágan vindmótstuðul upp á 0,278 Cd.

Gemera er fyrsta tilraun Koenigsegg til að framleiða fjölskyldubíl ef svo má segja. Bíllinn er með sæti fyrir fjóra, upplýsingakerfi fyrir alla farþega og meira að segja þokkalegu farangursrými. Afl bílsins er eftirtektarvert en það er samtals 1.800 hestöfl og snúningsvægið 3.500 Newtonmetrar hvorki meira né minna. Hann nær 100 km hraða á 1,9 sekúndu og hámarkshraðinn er 400 km á klst. Þetta næst með því að hafa þrjá rafmótora í bílnum sem samtals skila 1.100 hestöflum. Þegar aðeins rafmagnið er notað getur bíllinn náð 300 km hraða og 800V rafhlaðan gefur honum 50 km drægi. Frammí er svo vél sem Koenigsegg kallar „litla vinalega risann“ en það er þriggja strokka, tveggja lítra vél sem gengur fyrir etanóli eða metanóli. Vélin er með fljótandi ventlakerfi Koenigsegg og skilar ein og sér 600 hestöflum. Þegar hún gengur á kolefnislausu metanóli er bíllinn laus við mengun eins og hver annar rafmagnsbíll. Aðeins 300 Gemera verða smíðaðir og munu þeir kosta frá 240 milljónum króna.