Myndir af nýjum Ford Bronco sem frumsýndur verður í seinna í þessum mánuði eru farnar að leka á netið. Myndirnar með þessaari frétt birtust á spjallþræði fullsizebronco.com og sýnir heildarsvip beggja útgáfa hans mjög vel.

Fjögurra dyra bíllinn á myndinni er greinilega með tuskutopp sem hægt er að taka af bílnum. Það er greinilega torfærubíll hér á ferðinni með alvöru stuðurum og grófum dekkjum. Athyglisvert er að sjá að það eru brettakantar á bílnum líkt og á breyttum jeppa. Tveggja dyra bíllinn er svipaður að mörgu leyti þótt hann sé með hörðum toppi sem gefur til kynna að myndirnar séu ekta. Bornco verður að öllum líkindum búinn sömu 2,3 lítra vél og í Ford Ranger ásamt fjórhjóladrifi en einnig verður tvinnútgáfa í boði. Til að hann geti keppt við Jeep Wrangler verður hann líklegast einnig boðinn með beinskiptum gírkassa og hurðum sem taka má af.