Þáttur á Discovery sem kallaður er Diesel Brothers fjallar um nokkra gaura sem elska dísiltrukka. Heavy D, Diesel Dave, Joshua Stuart og Keaton Hoskins leika þar lausum hala, breyta dísiltrukkum, leika í áhættuatriðum og fíflast fyrir framan myndavélarnar. Þeir hafa nú verið dæmdir til að borga 110 milljónir króna í sekt fyrir að brjóta á mengunarreglum í Utah.

Upp komst að þeir höfðu fjarlægt mengunarvarnarbúnað í bílum sem breytt var í þáttunum af fyrirtækjum í eigu þeirra. Auk þess að þurfa að borga sektina þurfa þeir að borga 155 milljónir í lögfræðikostnað þeirra sem höfðuðu málið gegn þeim, sem voru samtökin Læknar fyrir heilbrigt umhverfi. Gengu samtökin svo langt að kaupa trukk af David „Heavy D“ Sparks og senda hann til skoðunar hjá EPA. Þar sýndi skoðunin að trukkurinn mengaði 36 sinnum meira en eðlilegt var, og að kolefnisagnir í útblæstri væru 21 sinnum meiri en ef bíllinn væri búinn mengunarvarnarbúnaði.