Hyundai hefur frumsýnt nýjan rafmagnsbíl sem kallast Prophecy, en eins og nafnið gefur til kynna er þessi tilraunabíll spádómur framleiðandans um framtíðina.

Þótt ekkert hafi verið gefið upp um hvort að bíll sem þessi muni fara í framleiðslu er ljóst að hönnunardeild Hyundai hefur fengið að leika sér dáldið með mögulega framtíð bílaframleiðandans. Útlitið sjálft er ekki róttækt í sjálfu sér og sækir greinilega til annarra framleiðanda en tæknin er hins vegar á fullu gasi. Bíllinn er með Pixel ljósum að framan og aftan eins og Concept 45 tilraunabíllinn og að sögn Hyundai munum við sjá slík ljós í bílum þeirra í framtíðinni. Ekkert stýri er í bílnum sem mun vera að mestu leyti sjálfkeyrandi, en tveir stýripinnar sitt hvoru megin við ökumannssætið eru til að ökumaður geti stjórnað bílnum að einhverju leyti. Eins og aðrir tilraunabílar nútímans er innréttingin með skjái á allar hendur, og einn skjár í viðbót kemur uppúr mælaborðinu.