Það eru nokkrar góðar fréttir að koma frá Kína þessa stundina og ein þeirra er sú að framleiðsla á öðru framleiðslumódeli Polestar er að hefjast í Luqiao í Kína. Luqiao er aðeins rúma 800 km frá Wuhan þar sem COVID-19 hefur verið skæðust þar í landi.

Polestar 2 mun kosta 8,2 milljónir króna þegar hann kemur á markað í Evrópu í sumar. Hann mun svo fara á sölu í Bandaríkjunum og Kína í kjölfarið en þessum bíl er ætlað að keppa við Tesla Model 3. Í verksmiðju Geely í Luqiao, sem á bæði Volvo og Polestar merkið, er Volvo XC40 einnig framleiddur á CMA undirvagninum. Polestar 2 er fyrsti 100% rafbíllinn sem er smíðaður í verksmiðjunni. Bíllinn byggir talsvert á útliti S90 en hann var fyrst frumsýndir á bílasýningunni í Genf í fyrra. Polestar 2 verður aðeins seldur gegnum netið en þeir sem vilja kaupa bílinn í Bretlandi þurfa að greiða 1.000 pund inná bílinn. Fyrstu afhendingar verða í júlíbyrjun í Bretlandi að sögn Autocar. Fyrstu bílarnir verða vel búnir með tveimur rafmótorum og 78 kWh rafhlöðu. Það skilar sér í 402 hestöflum og 500 km drægi. Ódýrari útgáfur verða svo boðnar frá 5,7 milljónum króna.