Fimmta kynslóð nýs Range Rover er væntanleg á markað undir lok næsta árs en nýlega náðust myndir af honum við vetrarprófanir. Mun hann verða prófaður í heitu loftslagi á næstu vikum og hefur Land Rover sagt að þrátt fyrir kórónafaraldurinn munu áætlanir um prófun og markaðssetningu Range Rover standast.

Myndin sýnir þrátt fyrir felubúnað að bíllinn er talsvert breyttur enda byggður á breytanlega MLA undirvagninum. Hann virðist breiðari en áður og fá stærri bretti sem gefur honum verklegra útlit. Framendinn verður nokkuð líkur bílnum sem er fyrir þótt einhverjar breytingar verði á honum, en erfitt er að sjá það á myndinni. Núverandi kynslóð kom á markað árið 2012 svo kominn er tími á nýja línu, en 53.000 eintök voru seld af honum í fyrra á heimsvísu. MLA undirvagninn býður uppá brunahreyfla, tengiltvinnútgáfu eða hreina rafbílaútgáfu. Orðrómur er uppi um að hann verði einnig í boði með öflugri V8 bensínvél frá BMW fyrir suma markaði. Tengiltvinnútgáfa verður að öllum líkindum með tvo rafmótora, annan fyrir afturdrif en hinn innbyggðan í sjálfskiptinguna. Rafútgáfa fengi líklega 100 kWst rafhlöðu og rafmótora fyrir fram- og afturdrif.