Ameríski rafbílaframleiðandinn Bollinger hefur hingað til þróað og smíðað rafpallbíla en í vikunni kynnti hann fyrsta rafdrifna millistærðartrukkinn. Bíllinn er millistig stórs pallbíls og vörubíls og er breytanlegur fyrir margar gerðir atvinnutækja. Getur hann skipt út afturhluta fyrir pall, yfirbyggingu, krana eða hvað sem er.

Hann verður byggður í Bandaríkjunum á sama brettisundirvagni og Bollinger B1 og B2 rafjepparnir sem frumsýndir voru í Los Angeles í fyrra. Hægt verður að fá hann í tveggja og fjögurra dyra útgáfum og með mismunandi hjólhafi eftir þörfum hvers og eins. Rafhlaðan verður 120 kWst og drífur tvo rafmótora fyrir hvorn öxul. Samtals skilar þeir 614 hestöflum og 906 Newtonmetra togi. Í B1 og B2 dugir það til að þeir komist í hundraðið á 4,5 sekúndum en þessi verður eitthvað svifaseinni. Hann verður meðal annars búinn 10 kW hleðslustöð og vökvafjöðrun sem að réttir bílinn af. Hægt verður að panta hann síðla árs 2021 en ekkert hefur verið gefið upp um hvort hann verði fáanlegur í Evrópu.